Enski boltinn

Messan: „Stuðningsmenn United vilja frekar sjá City vinna en Liverpool“

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Ólafur Ingi Skúlason og Jóhannes Karl Guðjónsson
Ólafur Ingi Skúlason og Jóhannes Karl Guðjónsson s2 sport

Liverpool og Manchester City eiga í harðri baráttu um Englandsmeistaratitilinn. Leikurinn sem gæti haft úrslitaáhrif í þeirri baráttu er viðureign Manchester City og Manchester United.

Liverpool á fjóra leiki eftir en Manchester City fimm. Liverpool er með tveggja stiga forskot á ríkjandi meistara City í dag.

Liverpool á eftir að mæta Cardiff, Huddersfield, Newcastle og Wolves. Allt eru þetta leikir sem á pappírnum ættu að vera nokkuð þægilegir sigrar, nema kannski leikurinn við Úlfana, þeir hafa staðið í toppliðunum í vetur.

City á hins vegar eftir Tottenham, Manchester United, Burnley, Leicester og Brighton. Næstu tveir leikir hjá City eru því gegn topp sex liðum í deildinni.

„Heilt yfir þá er þetta miklu erfiðara prógramm, en þessir tveir leikir munu skera úr um þetta fyrir City,“ sagði Ólafur Ingi Skúlason í Messunni á Stöð 2 Sport í gærkvöld.

„Ég ætla að óska eftir því að Manchester United hjálpi okkur Liverpoolmönnum í þessari titilbaráttu,“ sagði Jóhannes Karl Guðjónsson. „Eins skrýtið og það hljómar þá held ég samt sem áður að stuðningsmenn Manchester United vilji frekar að City vinni deildina heldur en Liverpool.“

Manchester United og Liverpool hafa verið erkifjendur í fjöldamörg ár og háð marga baráttuna. Þrátt fyrir að Manchester City og Manchester United séu nágrannar þá hefur rígurinn ekki verið eins mikill þar á milli í sögunni, það er aðeins á undanförnum árum sem bláa liðið í Manchester hefur stigið upp og orðið að stórliði.

„Rígurinn er eldri og hefur alltaf verið stærri á milli Liverpool og United. City er samt búið að yfirtaka Manchesterborg og ég trúi því ekki að stuðningsmenn United geti ekki verið aðeins stærri en það að vilja að City sé alltaf að taka sigurinn og þeir í baráttunni um Meistaradeildarsæti.“

„Ég ætla bara að þakka United fyrir fyrirfram að hjálpa okkur að vinna titilinn,“ sagði Jóhannes Karl.

Alla umræðuna má sjá hér að neðan.


Klippa: Messan: Stuðningsmenn United vilja að City vinni deildinaAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.