Erlent

Juncker telur útgöngu án samnings líklega á meðan May og Corbyn funda

Kjartan Kjartansson skrifar
May og Corbyn eru bæði afar óvinsæl vegna framgöngu þeirra í Brexit-málum. Þau hittast til fundar í dag.
May og Corbyn eru bæði afar óvinsæl vegna framgöngu þeirra í Brexit-málum. Þau hittast til fundar í dag. Vísir/EPA
Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, fundar í dag með Jeremy Corbyn, leiðtoga Verkamannaflokksins, til að freista þess að finna lausn á Brexit-þráteflinu. Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar ESB, segir mjög líklegt að Bretar gangi úr sambandinu án samnings í næstu viku.

Frestur á útgöngu Bretlands sem Evrópusambandið veitti rennur út föstudaginn 12. apríl. Hvorki hefur gengið né rekið hjá May forsætisráðherra að koma útgöngusamningi við sambandið í gegnum breska þingið. Þingmenn höfnuðu honum í þriðja skipti í síðustu viku.

Staðan hefur nú rekið May í fang Corbyn en þau byrjuðu að funda klukkan hálf eitt að íslenskum tíma í dag. Corbyn hefur boðað skuggaráðuneyti sitt til fundar síðdegis til að ræða það sem þeim May fór á milli. Ákvörðun May um að leita til Corbyn hefur fallið í grýttan jarðveg hjá flokkssystkinum hennar. Þannig sagði Nigel Adams, ráðherra málefna Wales, af sér vegna hennar.

Fyrr í dag ávarpaði Juncker Evrópuþingið og ítrekaði að frekari skammtímafrestun á útgöngu Breta væri ekki í boði af hálfu sambandsins. Breskir þingmenn yrðu að samþykkja útgöngusamning May fyrir föstudag. Annað hvort yrðu Bretar að ganga úr sambandinu án samnings að biðja um langa frestun.

„Eftir 12. apríl eigum við á hættu að setja Evrópuþingskosningar úr skorðum og ógna þannig starfsemi Evrópusambandsins,“ sagði Juncker Evrópuþingmönnum.

Fyrir sitt leyti hefur May ekki útilokað að Bretar gætu tekið þátt í Evrópuþingskosningum neyðist hún til að fara fram á langtímafrestun á Brexit, að sögn The Guardian. Hennar markmið væri þó að samþykkja útgöngusamning sem fyrst þannig að af útgöngunni verði 22. maí. Evrópusambandið hefur sagst tilbúið að fresta útgöngunni þar til þá samþykki Bretar útgöngusamning fyrir 12. apríl.

Juncker virtist þó ekki bjartsýnn á að breska þinginu auðnaðist að ná samkomulagi á næstunni.

„Ég trúi því að „enginn samningur“ á miðnætti 12. apríl sé nú mjög líkleg sviðsmynd. Það er ekki niðurstaðan sem ég vil en það er niðurstaða sem ég hef tryggt að Evrópusambandið er tilbúið fyrir,“ sagði hann.


Tengdar fréttir

Segir hægt að komast hjá útgöngu án samnings

Tíu dagar eru í að Bretar gangi úr Evrópusambandinu. Þingið felldi allar tillögur um valkosti í stöðunni í gær. Samningamaður ESB segir líkur á útgöngu án samnings aukast dag frá degi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×