Enski boltinn

Messan: Arsenal hefur ekkert getað á útivelli

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Arsenal beið lægri hlut fyrir Everton, 1-0, í ensku úrvalsdeildinni í gær. Skyttunum hefur gengið frábærlega á heimavelli á tímabilinu en skelfilega á útivelli.

Aðeins toppliðin tvö, Manchester City og Liverpool, eru með betri árangur á heimavelli í ensku úrvalsdeildinni í vetur. Arsenal er hins vegar aðeins með tíunda besta árangurinn á útivelli.

„Voru Arsenal-menn ekki bara eins og þeir hafa verið á útivelli í dálítið langan tíma? Þeir eru eitt besta lið í heiminum á heimavelli. Þeir eru bara búnir að vinna einn útileik á þessu ári og það er komið fram í miðjan apríl. Það var á móti Huddersfield og þeir hörkuðu í gegnum hann. Þeir hafa ekkert getað á útivelli,“ sagði Hjörvar Hafliðason í Messunni í gær.

Unai Emery, knattspyrnustjóri Arsenal, byrjaði með Pierre-Emerick Aubameyang og Aaron Ramsey á bekknum. Ríkharður Daðason furðaði sig á þeirri ákvörðun Spánverjans.

„Hann er væntanlega að hugsa um leikinn gegn Napoli í Evrópudeildinni á fimmtudaginn. Þar getur Arsenal unnið titil. En þegar þú hefur verið á góðri siglingu og getur haldið 3. sætinu, af hverju ferðu með eitthvað minna en þitt besta lið og reynir að halda áfram á þessu skriði. Mér fannst þetta röng uppstilling,“ sagði Ríkharður.

Innslagið í heild sinni má sjá hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×