Erlent

Bandaríkjaforseti ítrekar hótanir gegn Mið-Ameríkuríkjum

Kjartan Kjartansson skrifar
Förufólkið hefur farið fótgangandi frá Hondúras norður til Mexíkó. Það er sagt flýja blóðuga glæpaöldu og fátækt í heimalandinu.
Förufólkið hefur farið fótgangandi frá Hondúras norður til Mexíkó. Það er sagt flýja blóðuga glæpaöldu og fátækt í heimalandinu. Vísir/EPA
Hópur flóttafólks frá Mið-Ameríku sem stefnir á Bandaríkjunum heldur áfram að æsa upp Donald Trump Bandaríkjaforseta. Í röð tísta í morgun ítrekaði Trump fyrri hótanir sínar um að hætta fjárhagslegri aðstoð við Hondúras, Gvatemala og El Salvador vegna hópsins sem forsetinn telur valda „neyðarástandi“ í Bandaríkjunum.

Fréttir af um þúsund manna hópi flóttafólks frá Hondúras á ferð norður eftir Mið-Ameríku og Mexíkó í átt að Bandaríkjunum urðu Trump tilefni til að hafa í hótunum við nágrannaríkin í síðustu viku. Forsetinn hótaði meðal annars að senda herinn að suðurlandamærunum og loka þeim jafnvel alveg til að koma í veg fyrir að hópurinn kæmi til landsins.

Síðan þá hefur Trump ítrekað tíst og rætt um flóttafólkið.  Trump hélt áfram að tísta um hópinn í morgun og úthrópa yfirvöld í Mexíkó og Miðameríkulöndunum fyrir að hefta ekki för hans. Kenndi hann demókrötum um að hópurinn stefni á Bandaríkin og fullyrti án nokkurs snefils af sönnunum að í hópnum leynist „Miðausturlendingar“.

„Því miður þá lítur út fyrir að lögregla og her Mexíkó hafi ekki tekist að stöðva för hópsins að suðurlandamærum Bandaríkjanna. Ég hef látið landamæraeftirlitið og herinn vita af því að þetta er þjóðarneyðarástand,“ tísti forsetinn.





Fullyrti hann að ríkisstjórn sín hæfist nú handa við að stöðva eða draga verulega úr fjárhagslegri aðstoð við Hondúras, Gvatemala og El Salvador vegna hópsins. AP-fréttastofan segir að Bandaríkjastjórn hafi veitt ríkjunum samanlagt um 500 milljónir dollara í fyrra.

Embættismenn Hvíta hússins, landamæraeftirlitsins eða varnarmálaráðuneytisins, hafa ekki enn brugðist við fullyrðingum forsetans, að sögn AP og Reuters.


Tengdar fréttir

Um fimm þúsund flóttamenn við landamæri Mexíkó

Þúsundir hondúrskra flóttamanna eru nú við landamæri Mexíkó og Gvatemala þar sem þeir freista þess að komast inn í Mexíkó og halda áfram för sinni frá Mið-Ameríku til Bandaríkjanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×