Erlent

Vinsældir Merkel ekki minni í tólf ár

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Angela Merkel hefur nóg að hugsa um þessa dagana.
Angela Merkel hefur nóg að hugsa um þessa dagana. Vísir/Getty
Stuðningur við íhaldsblokk Angelu Merkel Þýskalandskanslara hefur ekki verið minni frá árinu 2006. Í nýrri könnun, sem stórblaðið Bild am Sonntag birti í dag, sést að stuðningur við Kristilega demókrata (CDU) og systurflokk hans í Bæjaralandi (CSU) er um 29 prósent. Stuðningurinn hefur því minnkað um rúm 4 prósent frá því í þingkosningunum í september á síðasta ári.

Það hefur staðið styr um ríkisstjórn Merkel á síðustu vikum og mánuðum, ekki síst vegna innflytjendastefnu kanslarans. Horst Seehofer, leiðtogi CSU, hefur verið einn hatrammasti andstæðingur stefnunnar í röðum bandamanna kanslarans. Hann hótaði að sprengja ríkisstjórnina ef stefnan yrði ekki endurskoðuð - sem fallist var á í upphafi mánaðarins.

Talið er að CSU muni eiga í vök að verjast í héraðskosningunum í Bæjaralandi, sem fram fara í október næstkomandi. Þar er flokkurinn með hreinan meirihluta en talið er ólíklegt að CSU muni halda sterkri stöðu sinni.

Stuðningur við Sósíaldemókrataflokkinn hefur lítið breyst ef marka má hina nýju könnun, mælist enn um 18 prósent. Alternative für Deutschland, eða Valkostur fyrir Þýskaland, nýtur stuðnings um 15 prósent þýsku þjóðarinnar og breytist fylgið lítið milli kannanna.

Græningjaflokkurinn virðist þó vera að græða mest á vandræðum Merkel. Stuðningurinn við flokkinn hefur aukist úr 2 prósentum upp í 14 og hefur flokkurinn ekki notið jafns mikils fylgis á árinu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×