Erlent

Óljós staða eftir samkomulag Merkel og Seehofer

Atli Ísleifsson skrifar
Fjármálaráðherrann þýski Olaf Scholz, Andrea Nahle, leiðtofi þýskra Jafnaðarmanna, og Angela Merkel Þýskalandskanslari.
Fjármálaráðherrann þýski Olaf Scholz, Andrea Nahle, leiðtofi þýskra Jafnaðarmanna, og Angela Merkel Þýskalandskanslari. Vísir/ap

Staðan í þýskum stjórnmálum er enn nokkuð óskýr og óvíst er um framhaldið eftir að Angelu Merkel Þýskalandskanslara og innanríkisráðherranum Horst Seehofer tókst í gærkvöldi að komast að samkomulagi sín á milli varðandi innflytjendastefnu þýsku stjórnarinnar.

Samkomulagið felur meðal annars í sér að Seehofer, leiðtogi CSU, systurflokks CDU, flokks Merkel, gegni áfram embætti innanríkisráðherra, en hann hafði áður boðist til að segja af sér. Enn er óljóst hver afstaða þriðja stjórnarflokksins, Jafnaðarmannaflokksins, er í málinu og hvernig hann muni bregðast við samkomulagi þeirra Merkel og Seehofer.

Viðkomumiðstöðvar
Seehofer og CSU-flokkur hans, Kristilegir demókratar í Bæjaralandi, hafði talað fyrir því að þýska stjórnin tæki upp harðari stefnu í innflytjendamálum og að þýskum yfirvöldum yrði heimilt að vísa frá hælisleitendum, sem hafi áður verið skráðir í öðrum aðildarríkjum ESB, við þýsku landamærin. Merkel hefur hins vegar talað fyrir samevrópskri lausn á vandanum eftir leiðtogafund aðildarríkja ESB í síðustu viku.

Samkomulag Merkel og Seehofer felur meðal annars stofnun viðkomamiðstöðva í Þýskalandi fyrir hælisleitendur, þangað sem þeir verða sendir til að síðar verða sendir til þeirra ríkja þaðan sem þeir komu. Spiegel greinir frá því að ekki sé um neina raunverulega lausn að ræða, heldur einungis verið að koma vandamálinu yfir á Jafnaðarmenn um hvert framhaldið verður.

Beðið eftir Nahle
Jafnaðarmenn hafa áður hafnað lausn sem þessari og lendir það nú á borði leiðtoga Jafnaðarmanna, Andreu Nahle, að bregðast við útspili leiðtoga hinna flokkanna í ríkisstjórn. Þarf hún að finna leið til að svíkja ekki stefnu Jafnaðarmannaflokksins, og hins vegar koma í veg fyrir að ríkisstjórnin, sem marga mánuði tók að mynda eftir kosningarnar í september síðastliðinn, falli.

AFP greinir sömuleiðis frá því að augu manna muni beinast að Austurríki og hvernig ríkisstjórnin þar í landi bregðist við stefnu Þjóðverja. Í yfirlýsingu frá austurrískum stjórnvöldum kemur fram að Austurríkismenn muni „neyðast til að bregðast við“ ef samkomulag Merkel og Seehofer verði að opinberri stefnu Þýskalandsstjórnar. Viðbrögð Austurríkismanna kynnu að verða að herða verulega eftirlit á landamærum Austurríkis að Ítalíu og Slóveníu, sem myndi mögulega leiða til viðbragða af hálfu nágrannanna í suðri.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.