Erlent

Funda um innflytjendamálin í kvöld

Atli Ísleifsson skrifar
Angela Merkel fundar með Horst Seehofer og Angelu Nahle, leiðtoga Jafnaðarmanna, í kvöld.
Angela Merkel fundar með Horst Seehofer og Angelu Nahle, leiðtoga Jafnaðarmanna, í kvöld. Vísir/EPA

Ekkert samkomulag virðist sem stendur í sjónmáli hjá þýsku ríkisstjórnarflokkunum um innflytjendamálin. Leiðtogar flokka Kristlegra demókrata, CDU og CSU, og Jafnaðarmanna (SDU) koma saman til fundar í Berlín í kvöld til að ræða hugmyndir CDU, flokks Angelu Merkel kanslara, og systurflokksins CSU um að komið verði á fót sérstökum viðkomustöðvum fyrir hælisleitendur í landinu.

Times greini frá þessu.  Merkel og innanríkisráðherrann í ríkisstjórn hennar og leiðtogi CSU, Horst Seehofer, náðu samkomulagi fyrr í vikunni eftir að Seehofer hafði boðist til að segja af sér embætti. Seehofer og hafði talað fyrir því að þýska stjórnin tæki upp mun harðari stefnu í innflytjendamálum þar sem heimilt yrði að vísa flóttafólki frá við landamærin. Merkel hafði hins vegar talað um nauðsyn samevrópskrar lausnar.

CDU og CSU náðu samkomulagi eftir miklar samningaviðræður og þurfa flokkarnir nú að reyna að sannfæra fulltrúa Jafnaðarmannaflokksins um ágæti samkomulagsins. Það gengur út á að hælisleitendur sem áður hafa verið skráðir í öðru aðildarríki ESB verði sendir í sérstakar búðir eða miðstöðvar við landamærin áður en þeir eru sendir aftur til þess ríkis sem um ræðir.

Innan raða Jafnaðarmannaflokksins furða sumir sig á áframhaldandi veru Seehofer í ríkisstjórninni. „Að hann sé yfir höfuð enn ráðherra ber einungis merki um sífellt veikari stöðu Angelu Merkel,“ segir Thomas Oppermann, einn leiðtoga Jafnaðarmannaflokksins og varaforseti þýska þingsins, í samtali við Redaktionsnetzwerk Deutschland.

Seehofer fundaði með Sebastian Kurz, kanslara Austurríkis, í hádeginu og Merkel með Victor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands, til að ræða málefni flóttafólks í álfunni, en þeir Kurz og Orban hafa báðir talað fyrir harðri stefnu sinnar stjórnar og ESB í málaflokknum.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.