Erlent

Lögmaður Trump segist setja fjölskylduna framar forsetanum

Kjartan Kjartansson skrifar
Þrátt fyrir að Cohen hafi unnið trúnaðarstörf fyrir Trump og fyrirtæki hans um árabil hefur forsetinn og bandamenn hans fjarlægt sig lögmannninum eftir að rannsóknin á honum hófst.
Þrátt fyrir að Cohen hafi unnið trúnaðarstörf fyrir Trump og fyrirtæki hans um árabil hefur forsetinn og bandamenn hans fjarlægt sig lögmannninum eftir að rannsóknin á honum hófst. Vísir/EPA
Michael Cohen, persónulegur lögmaður Donalds Trump Bandaríkjaforseta, ýjaði að því að hann væri tilbúinn að vinna með saksóknurum jafnvel þó að slík samvinna gæti komið niður á forsetanum í viðtali við bandaríska sjónvarpsstöð í gær. Cohen hefur verið til rannsóknar vegna fjármála sinna.

Í viðtali við ABC-sjónvarpsstöðina spurði George Stephanopoulos lögmanninn út í fyrri yfirlýsingar sínar um að hann væri reiðubúinn að „taka byssukúlu“ fyrir Trump.

„Til að það sé á kristalstæru er hollusta mín fyrst og fremst við konuna mína, dóttur mína og son og þetta land,“ sagði Cohen.

Washington Post segir að Cohen telji að Trump hafi yfirgefið sig. Hann sitji nú eftir í súpunni og þurfi að greiða himinháan lögfræðikostnað.

Vildi ekki svara hvort Trump hefði skipað fyrir um greiðsluna

Það var Robert Mueller, sérstaki rannsakandinn sem rannsakar meint samráð forsetaframboðs Trump við Rússa, sem vísaði máli tengdu Cohen til saksóknara í New York. Það tengist meðal annars greiðslu hans til klámmyndaleikkonu sem segist hafa átt í kynferðislegu sambandi við Trump.

Cohen hefur ekki verið ákærður en hann er grunaður um fjársvik og brot á kosningalögum. Húsleitir voru gerðar á skrifstofu, íbúð og hótelherbergi Cohen fyrr á þessu ári. Trump brást ókvæða við húsleitunum og tísti ítrekað um þær í marga daga á eftir.

Sérstakur fulltrúi dómstóls í New York hefur undanfarið lagst yfir gögn sem lagt var hald á til að úrskurða um hver þeirra séu vernduð trúnaði á milli lögmanns og skjólstæðings. Hann hefur nú afhent saksóknurum um 1,3 milljón blaðsíður af gögnum.

Í viðtalinu baðst Cohen undan því að svara beint hvort að Trump hefði skipað honum að greiða Stephanie Clifford, klámmyndaleikkonunni sem er betur þekkt undir nafninu Stormy Daniels, rétt fyrir kosningarnar árið 2016.

„Ég vil svara. Einn daginn mun ég svara,“ sagði Cohen sem hefur fram að þessu fullyrt að hann sjálfur ákveðið að greiða Clifford úr eigin vasa. Rudy Giuliani, lögmaður Trump, sagði síðar að Trump hefði endurgreitt Cohen.


Tengdar fréttir

Trump endurgreiddi lögmanninum þagnargreiðsluna

Rudy Giuliani segir að Donald Trump hafi endurgreitt lögmanni sínum, Michel Cohen, þá 130 þúsund dali sem varið var til að þagga niður í klámmyndaleikkonunni Stormy Daniels.

Trump birtir gögn um þagnargreiðslu til klámstjörnu

Lögfræðingurinn Michael Cohen mun hafa greitt Daniels sem svarar um þrettán og hálfri milljón króna rétt fyrir kosningarnar haustið 2016. Hún segir að greiðslan hafi verið þagnargjald þar sem Trump hafi óttast að hún myndi greina opinberlega frá bólförum þeirra tíu árum áður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×