Erlent

Lögmaður Trump gerði milljónasamning um þögn Playboy-fyrirsætu

Kjartan Kjartansson skrifar
Síðasta vikan hefur verið Michael Cohen erfið í skauti. Hann er nú til rannsóknar alríkisyfirvalda.
Síðasta vikan hefur verið Michael Cohen erfið í skauti. Hann er nú til rannsóknar alríkisyfirvalda. Vísir/AFP
Aðstoðarfjármálastjóri Repúblikanaflokksins í Bandaríkjunum hefur sagt af sér eftir að í ljós kom að lögmaður Donalds Trump forseta gerði þagmælskusamning fyrir hans hönd við Playboy-fyrirsætu sem hann hafði barnað. Lögmaður Trump er nú til rannsóknar vegna svipaðra greiðslna fyrir hönd Trump.

Elliot Broidy hefur verið einn helsti fjáraflari Trump og Repúblikanaflokksins. Hann greiddi Playboy-fyrirsætunni 1,6 milljónir dollara fyrir þögn hennar síðla árs í fyrra samkvæmt samningi sem Michael Cohen, lögmaður Trump til margra ára, útbjó, að því er segir í frétt Washington Post.

Broidy gekkst við því að hafa átt í sambandi við konuna á föstudag og lét þá af störfum sem aðstoðarfjármálastjóri flokksins. Skammt er liðið frá því að Steve Wynn, fjármálastjóri repúblikana, þurfti að hætta eftir ásakanir um kynferðislega áreitni.

Lögmaðurinn til alríkisrannsóknar

Aðkoma Cohen að samkomulaginu þykir sérlega fréttnæm en fram hefur komið að hann greiddi 130.000 dollara úr eigin vasa til að tryggja þögn klámmyndaleikkonu um kynferðislegt samband hennar við Trump rétt fyrir forsetakosningarnar árið 2016.

Alríkissaksóknarar greindu frá því á föstudag að Cohen hefði verið til rannsóknar um margra mánaða skeið. Ákærudómstóll hefði verið skipaður til þess að fara yfir ýmsa viðskiptagjörninga hans. Húsleitir voru gerðir á lögmannsstofu, íbúð og hótelherbergi Cohen á mánudag. Á meðal gagna sem alríkislögreglan lagði hald á eru sagðar upptökur af símtölum Cohen, mögulega við Trump forseta sjálfan.

Cohen og Trump hafa krafist þess fyrir dómi að yfirvöld fái ekki að skoða hluta gagnanna þar sem þau falli undir trúnaðarsamband lögmanns og skjólstæðings sem er verndað með lögum. Trump brást ókvæða við rassíunum á mánudag og kallaði þær meðal annars árás á Bandaríkin.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×