Erlent

Trump endurgreiddi lögmanninum þagnargreiðsluna

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Rudy Giuliani fór um víðan völl í viðtalinu við Sean Hannity í gærkvöldi.
Rudy Giuliani fór um víðan völl í viðtalinu við Sean Hannity í gærkvöldi. Skjáskot
Rudy Giuliani, fyrrverandi borgarstjóri New York, áhrifamaður í Repúblikanaflokknum og einn af ráðgjöfum Bandaríkjaforseta, segir að Donald Trump hafi endurgreitt lögmanni sínum, Michael Cohen, þá 130 þúsund dali sem varið var til að þagga niður í klámmyndaleikkonunni Stormy Daniels.

Fullyrðing Giuliani, sem hann lét hafa eftir sér í samtali við Fox News í gærkvöldi, er merkileg fyrir margra hluta sakir. Ekki aðeins vegna þess að hún kemur frá einstaklingi sem stendur forsetanum nærri heldur einnig vegna þess að hún gengur þvert á allt það sem Trump hefur sjálfur haldið fram um málið til þessa.

Forsetinn hélt því í upphafi fram að hann hafi ekkert vitað um greiðslu Cohen til Daniels, en í samtali við Fox and Friends fyrir skömmu virtist hana muna eftir að hafa heyrt af henni á sínum tíma - skömmu áður en gengið var til kosninga árið 2016.

Hann hefur hins vegar alltaf þvertekið fyrir að hafa nokkuð með greiðsluna að gera. Cohen hafi sjálfur reitt fram þessa upphæð af fúsum og frjálsum vilja. Þar að auki segist forsetinn aldrei hafa sængað hjá Daniels, eins og klámyndaleikkonan heldur fram.

Ráðgjafinn Giuliani sagði hins vegar í gærkvöldi að jú - forsetinn hafi vitað um málið og ekki bara það, hann endurgreiddi Cohen upphæðina. Það sem skipti þó mestu máli í þessu er að greiðslan kom ekki úr kosningasjóðum Trump. Það telur Giuliani vera lykilatriði, því ef svo hefði verið mætti flokka greiðsluna sem óeðlilega íhlutun í kosningaumræðuna. Upplýsingar sem Daniels bjó yfir, en henni var greitt til að þaga um, kynnu að hafa haft áhrif á álit almennings á frambjóðandanum Trump. Því hefði verið hægt að sækja Trump til saka.

Sjá einnig: Lögmaður Trump neitar að bera vitni

Giuliani segir að 130 þúsund dalirnir hafi verið greiddir til baka á nokkrum mánuðum og í gegnum ónefnda lögmannsstofu. Hann bætti við að Trump sjálfur hafi ekki vitað um smáatriði málsins en að forsetinn hafi verið fullmeðvitaður um að „Michael [Cohen] myndi sjá um mál eins og þessi,“ sagði Giuliani á Fox í gærkvöldi.

Lögmaður Daniels, Michael Avenatti, sagði eftir viðtalið að Bandaríkjamenn ættu að vera æfir vegna ummæla Giuliani. „Við spáðum því fyrir mörgum mánuðum síðan að logið hafi verið að bandarísku þjóðinni um 130 þúsunda dala greiðsluna og hvað Trump vissi um málið.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×