Erlent

Stefnir Trump fyrir meiðyrði

Samúel Karl Ólason skrifar
Storymy Daniels og Michael Avenatti.
Storymy Daniels og Michael Avenatti. Vísir/AP
Klámleikkonan Stormy Daniels, hefur stefnt Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, fyrir meiðyrði. Stefnan snýr sérstaklega að tísti forsetans um mynd af manni sem Daniels segir að hafi ógnað sér á árum áður.

Hún segir manninn hafa ógnað sér og dóttur sinni árið 2011 þegar hún var að reyna að selja sögu sína af meintu framhjáhaldi hennar og Trump.

Stormy Daniels, sem heitir í raun Stefanie Clifford, hefur haldið því fram að hún hafi átt í ástarsambandi við Donald Trump árið 2006. Ári eftir að hann kvæntist Melaniu Trump og nokkrum mánuðum eftir að hún fæddi son þeirra.

Sjá einnig: „Þetta er falleg stelpa. Það væri leitt ef eitthvað kæmi fyrir móður hennar“



Í umræddu tísti skrifaði Trump: „Skissa, mörgum árum seinna, af manni sem er ekki til. Algjör svikamylla, sem gerir fífl úr fölskum fjölmiðlum (en þeir vita það)!

Í stefnunni segir að tístið sé rangt og feli í sér meiðyrði. Þar segir einnig að forsetinn hafi vitað að þessi ranga yfirlýsing yrði lesin víða um heim og gerð skil í fjölmiðlum.

Þar að auki segir að Daniels hafi borist morðhótanir og henni hafi einnig verið hótað líkamlegu ofbeldi í kjölfar tístsins.

Michael Avenatti, lögmaður Daniels, tilkynnti stefnuna á Twitter í dag og sagði hann að Trump vissi vel hvað hefði gerst og að hann væri meðsekur.

AP fréttaveitan hefur þar að auki eftir Avenatti að hann vilji kenna Trump að hann geti ekki skáldað hluti og talað illa um fólk án alvarlegra afleiðinga.



Daniels og Avinatti hafa einnig höfðað mál gegn Trump til að fá þagnarsamkomulag um hið meinta framhjáhald fellt niður. Michael Cohen, lögmaður Trump, hefur viðurkennt að hafa greitt Daniels 130 þúsund dali úr eigin vasa í aðdraganda forsetakosninganna 2016 en hann hefur ekki viljað segja af hverju, að öðru leyti en að um einkaviðskipti hafi verið að ræða.

Umrædd greiðsla er nú til rannsóknar hjá kosningayfirvöldum Bandaríkjanna þar sem að um greiðslu til framboðs Trump gæti hafa verið að ræða. 130 þúsund dalir er mun meira en löglegt er að leggja til framboðs.

Þar að auki hefur Alríkislögregla Bandaríkjanna (FBI) gert húsleit á heimili og skrifstofu Cohen þar sem meðal annars var verið að leita að upplýsingum um greiðsluna.

Daniels er ekki eina konan sem hefur stefnt Trump. Summer Zervos, fyrrverandi þátttakandi í sjónvarpsþætti Trump (The Apprentice), hefur sakað hann um kynferðislega áreitni. Hún stefndi honum fyrir meiðyrði eftir að hann sagði ásakanir hennar vera tilbúning.


Tengdar fréttir

Lögmaður Trump neitar að bera vitni

Í ljósi rannsóknar alríkislögreglunnar FBI vill lögmaðurinn ekki þurfa að bera vitni sem gæti bendlað hann við glæp í einkamáli klámmyndaleikkona gegn honum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×