Erlent

„Þetta er falleg stelpa. Það væri leitt ef eitthvað kæmi fyrir móður hennar“

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump og Stephanie Clifford, einnig þekkt sem Stormy Daniels.
Donald Trump og Stephanie Clifford, einnig þekkt sem Stormy Daniels. Vísir/Getty
Klámleikkonan og leikstjórinn Stormy Daniels, eða Stephanie Clifford, segir að sér og dóttur sinni hafi verið hótað ofbeldi árið 2011 þegar hún var að reyna að selja sögu sína af meintu framhjáhaldi hennar og Donald Trump, forseta Bandaríkjanna. Hún var í viðtali í fréttaskýringaþættinum 60 mínútur á CBS nú í kvöld þar sem hún sagði frá hótuninni og sambandi hennar og Trump sem á að hafa átt sér stað árið 2006, þegar Trump var sextugur og hún 27 ára.

Daniels segist hafa verið í bílastæðahúsi og á leið í líkamsrækt með dóttur sína sem þá var ungabarn þegar maður nálgaðist hana. 

„Láttu Trump í friði. Gleymdu sögunni,“ á maðurinn að hafa sagt. „Þetta er falleg stelpa. Það væri leitt ef eitthvað kæmi fyrir móður hennar.“

Þá hafði hún ákveðið að selja sögu sína til tímaritsins In Touch en heimildarmenn 60 mínútna sögðu ekkert hafa orðið af sölunni vegna þess að lögmaður Trump, Michael Cohen, hótaði að lögsækja tímaritið. Hvíta húsið hefur neitað því að framhjáhaldið hafi átt sér stað en á þeim tíma var Melania Trump nýbúin að eiga Baron Trump. Daniels fékk þó 130 þúsund dali fyrir að segja ekki frá hinu meinta framhjáhaldi, skömmu fyrir kosningarnar, og eftir að eftirlitsaðilar voru hvattir til að rannsaka hvort að greiðslan hefði verið úr kosningasjóði Trump viðurkenndi Cohen að hafa greitt Daniels.

Hann sagðist hins vegar hafa gert það úr eigin vasa og það hafi ekki komið forsetanum við á nokkurn hátt. Greiðslan er þó enn til rannsóknar og verið er að kanna hvort um sé að ræða ólöglegt framlag til kosningasjóðs Trump.

Sjá einnig: Trump reiður eftir að Sanders viður­kenndi til­vist þagnar­sam­komu­lags

Í 60 mínútum sagði Daniels einnig að ástæða þess að hún væri að tjá sig um málið, þrátt fyrir hótanir lögmanna Trump um að lögsækja hana og krefjast einnar milljónar dala í hvert sinn sem hún tjáir sig, væri vegna þess að hún vildi fá tækifæri til að verja sig. Henni þætti ótækt að fólk væri að saka hana um lygar og að hafa sofið hjá Trump fyrir peninga.

Hún sagði forsetann hafa reynt að greiða henni eftir mök.

Daniels sagði einnig frá fyrstu kynnum þeirra og hvernig hún hefði flengt hann með tímariti þar sem hann var á forsíðunni.

Besta tilboðið frá Trump

Eftir að samningurinn við In Touch gekk ekki eftir kom framhjáhaldið ekki upp í mörg ár. Samkvæmt Daniels breyttist það þó þegar Trump tryggði sér tilnefningu Repúblikanaflokksins. Hún segir fjölmarga aðila hafa haft samband við sig til þess að kaupa sögu hennar. Lögmaður Daniels hringdi þó í hana og sagði henni að besta tilboðið hefði komið frá Michael Cohen, lögmanni Trump. Hann hefði boðið henni 130 þúsund dali til að þaga.

Það tilboð heillaði hana bæði vegna peninganna sem hún myndi fá og einnig vegna þess að þá þyrfti hún ekki að opinbera framhjáhaldið þar sem það gæti haft áhrif á dóttur hennar. Sömuleiðis hefði hún enn óttast um öryggi sitt. Ellefu dögum fyrir kosningarnar 2016 skrifaði hún undir.

Fimmtán mánuðum seinna segir Wall Street Journal frá samkomulaginu og framhjáhaldinu. Daniels segir að frásögnin hafi ekki komið frá henni. Hún segir að hún hafi skrifað undir yfirlýsingu um að framhjáhaldið hefði ekki átt sér stað af ótta við lagalegar afleiðingar.

Anderson Cooper benti Daniels á að Trump horfði iðulega á 60 mínútur og spurði hvort hún hefði eitthvað við hann að segja.

„Hann veit að ég er að segja satt,“ sagði Daniels.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×