Enski boltinn

Koeman: Giroud var mættur á staðinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Olivier Giroud var nálægt því að ganga í raðir Everton.
Olivier Giroud var nálægt því að ganga í raðir Everton. vísir/getty
Ronald Koeman, fyrrverandi knattspyrnustjóri Everton, segist hafa verið hársbreidd frá því að kaupa Olivier Giroud frá Arsenal í sumar. Frakkanum hafi hins vegar snúist hugur á síðustu stundu.

Koeman var rekinn frá Everton á mánudaginn vegna lélegs árangurs liðsins á tímabilinu. Everton situr í fallsæti í ensku úrvalsdeildinni og hefur ekki enn unnið leik í riðlakeppni Evrópudeildarinnar.

Everton keypti marga leikmenn í sumar en mistókst að fylla í skarðið sem Romelu Lukaku skildi eftir sig.

„Olivier Giroud var mættur á staðinn,“ sagði Koeman um Frakkann sem átti að koma í staðinn fyrir Lukaku.

Ronald Koeman er atvinnulaus.vísir/getty
„Hann hefði passað fullkomlega en á síðustu stundu ákvað hann að hann vildi frekar búa í London og vera áfram hjá Arsenal. Það var erfitt að taka því. Segðu mér, hvar geturðu fengið betri framherja?“

Koeman ítrekaði hversu mikilvægur Lukaku var fyrir Everton.

„Hann var svo mikilvægur fyrir okkur, ekki bara út af mörkunum hans. Ef hlutirnir gengu ekki upp og við gátum ekki spilað eins og við vildum gátum við alltaf sent langan bolta fram á hann,“ sagði Koeman.

Everton tapaði 2-1 fyrir Chelsea í 16-liða úrslitum deildabikarsins í gær. Þetta var fyrsti leikur liðsins eftir að Koeman var rekinn. David Unsworth stýrði Everton í gær.


Tengdar fréttir

Gylfi fær falleinkun

Gylfi Þór Sigurðsson fær falleinkun frá Daily Mail fyrir frammistöðu sína hjá Everton það sem af er tímabilinu.

Blæðandi sár í Bítlaborginni

Liverpool-liðin tvö eru í vandræðum í ensku úrvalsdeildinni. Þau töpuðu bæði stórleikjum í gær. Starf Ronalds Koeman, knattspyrnustjóra Everton, hangir á bláþræði.

Þrefalt fleiri sigurleikir með Íslandi en Everton

Ronald Koeman, knattspyrnustjóri Gylfa Þórs Sigurðssonar hjá Everton, var rekinn á mánudaginn en þetta er þriðji stjóri Gylfa á síðustu þrettán mánuðum sem þarf að taka pokann sinn. Gylfi hefur mátt þola erfiða tíma á Goodison Park

Neville vill taka við Everton

Það er búið að orða marga menn við stjórastarfið hjá Everton sem augljóslega er eftirsótt.

Everton búið að reka Koeman

Gylfi Þór Sigurðsson mun fá nýjan stjóra fljótlega því félag hans, Everton, rak stjóra félagsins, Ronald Koeman, nú í hádeginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×