Enski boltinn

Stoltur af Everton-leikmönnunum sem spiluðu en gaf Gylfa ekki mínútu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson sat allan tímann á bekknum í gærkvöldi.
Gylfi Þór Sigurðsson sat allan tímann á bekknum í gærkvöldi. Vísir/Getty
David Unsworth stýrði Everton í fyrsta sinn í gærkvöldi þegar liðið tapaði á móti Chelsea í sextán liða úrslitum enska deildabikarsins.

Nú er það spurning hvort að íslenski landsliðsmaðurinn Gylfi Þór Sigurðsson þurfi að hafa áhyggjur af sæti sínu í byrjunarliðinu því hann fékk ekkert að spila í gærkvöldi og nýi stjórinn var ánægður með frammistöðu þeirra sem fengu tækifærið.

Chelsea vann leikinn 2-1 en bæði lið skoruðu mark í uppbótartíma leiksins. Willian kom Chelsea í 2-0 á 90.+2 en Dominic Calvert-Lewin minnkaði muninn fyrir Everton í blálokin.

„Ég er tapsár maður en ég verð samt að segja að ég er stoltur af frammistöðunni. Þeir voru frábærri,“ sagði David Unsworth sem tók tímabundið við Everton-liðinu eftir að  Ronald Koeman var rekinn.

„Vonandi getum við sýnt svona spilamennsku í öllum leikjum sem ég stýri,“ sagði David Unsworth. BBC segir frá.

Unsworth stillti upp fjögurra manna varnarlínu og setti Michael Keane á bekkinn.

Tom Davies, Kevin Mirallas og Aaron Lennon komu allir inn í byrjunarliðið en þeir komu með miklu meiri hraða inn í liðið.

Wayne Rooney hélt sæti sínu en Gylfi Þór Sigurðsson sat á bekknum og fékk ekkert að spila í leiknum.

Næsti leikur Everton er á móti Leicester City á útivelli á sunnudaginn. Hvert hlutverk Gylfa verður þar mun segja okkur mun betur hvernig David Unsworth ætlar að nota dýrasta leikmann félagsins í næstu leikjum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×