Enski boltinn

Rooney skoraði síðasta markið sitt á móti Íslandi | Myndir

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Wayne Rooney fagnar markinu á móti Íslandi.
Wayne Rooney fagnar markinu á móti Íslandi. Vísir/Getty
Wayne Rooney gaf það út í gær að hann væri búinn að spila sinn síðasta leik fyrir enska landsliðið en kappinn ætlar nú að einbeita sér að því að spila fyrir Everton. Ísland kemur við sögu þegar landsliðsferill Wayne Rooney er rifjaður upp.Rooney missti sæti sitt í enska landsliðinu á síðasta tímabili þegar hann datt út úr liðinu hjá Manchester United. Hann hafði hinsvegar unnið sér aftur sæti í hópnum með góðri byrjun á sínu fyrsta tímabili með Everton í rúm þrettán ár.Wayne Rooney skoraði 53 mörk í 119 landsleikjum fyrir England og leggur landsliðsskóna á hilluna bæði sem markahæsti leikmaðurinn og sá útileikmaður sem hefur spilað flesta leiki. Hann bætti þar markamet Bobby Charlton (49 mörk) og leikjamet David Beckham (115 leikir). Aðeins einn leikmaður hefur spilað fleiri landsleiki en Rooney en markvörðurinn Peter Shilton spilaði 125 landsleiki frá 1970 til 1990.Rooney lék sinn fyrsta landsleik á móti Ástralíu 12. febrúar 2003 og skoraði sitt fyrsta mark á móti Makedóníu 6. september 2003. Hann skoraði í fyrsta sinn meira en eitt mark í leik þegar hann setti tvö mörk framhjá Árna Gaut Arasyni í 6-1 sigri á Íslandi á Manchester-mótinu í júníbyrjun 2003.Ísland kom síðan aftur sögu við lok landsliðsferilsins því markið sem Wayne Rooney skoraði á móti Íslandi í sextán liða úrslitum Evrópumótsins í Frakklandi 2016 var 53. og síðasta mark hans fyrir enska landsliðið. Það var líka eina markið sem hann skoraði í síðustu níu landsleikjum sínum.Leikurinn á móti Íslandi var líka síðasti leikur hans á stórmóti með enska landsliðinu en Rooney tók alls þátt í sex stórmótum: EM 2004 í Portúgal, HM 2006 í Þýskalandi, HM í Suður-Afríku 2010, EM í Úkraínu 2012, HM í Brasilíu 2014 og EM í Frakklandi 2016.

Vísir/Getty
Vísir/Getty
Vísir/Getty
Vísir/Getty
Vísir/Getty
Vísir/Getty
Vísir/Getty
Vísir/GettyFleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.