Antonio Conte, knattspyrnustjóri Chelsea, tjáði Costa í júní að hann ætti sér enga framtíð hjá félaginu. Þrátt fyrir það er Costa enn á mála hjá Englandsmeisturunum.
Costa hefur verið sagt að koma aftur til Chelsea og æfa með varaliðinu. Hann heldur hins vegar kyrru fyrir í Brasilíu og virðist ekkert vera á leiðinni aftur til Englands, jafnvel þótt Chelsea sekti hann fyrir fjarveruna.

Wright skilur hins vegar ekki af hverju Chelsea vill losna við Costa sem var markahæsti leikmaður liðsins á síðasta tímabili.
„Eitthvað hefur gerst. Ég skil ekki af hverju þeir vilja losna við mann sem skorar pottþétt 20 mörk. Ég næ því ekki,“ sagði Wright.
Costa vill ólmur fara aftur til Atlético Madrid sem hann lék með áður en hann fór til Chelsea. Vandinn er hins vegar sá að Atlético er í félagaskiptabanni og má ekki kaupa leikmenn fyrr en eftir áramót.