Enski boltinn

Fimm ára gamall krabbameinsveikur drengur upplifði drauminn á Ljósvangi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Bradley var öruggur á vítapunktinum.
Bradley var öruggur á vítapunktinum. vísir/getty
Draumur Bradleys Lowery, fimm ára gamals krabbameinsveiks drengs, rættist í gærkvöldi þegar hann skoraði fyrir Sunderland á Ljósvangi.

Barátta Bradleys litla við sjaldgæfa tegund af krabbameini hefur vakið mikla athygli á Englandi.

Söfnun var sett af stað fyrir strákinn og í september fékk hann að leiða Jermain Defoe, fyrirliða Sunderland, inn á völlinn þegar liðið mætti Everton. Eftir leikinn gaf Everton 200.000 pund í söfnunina fyrir Bradley.

Foreldrar Bradleys fengu þær hræðilegu fréttir í síðustu viku að krabbameinið hefði dreift úr sér og þeirra biði ákvörðun um hvort það ætti að halda meðferðinni áfram eða hætta henni. Ekki liggur fyrir hvaða ákvörðun foreldrar Bradleys tóku.

Stráksi var aðalmaðurinn á Ljósvangi í gær þar sem Sunderland tók á móti Chelsea. Fyrir leikinn lék hann sér með leikmönnum liðanna og tók víti á Asmir Begovic, varamarkvörð Chelsea. Áður en hann tók vítið fékk hann góð ráð hjá Diego Costa, markahæsta leikmanni ensku úrvalsdeildarinnar.

Að sjálfsögðu skoraði Bradley og þar með rættist draumur hans; að skora fyrir Sunderland á Ljósvangi.

Bradley leiddi síðan liðin út á völlinn og á 5. mínútu stóðu áhorfendur á Ljósvangi upp og klöppuðu fyrir honum. Hjartnæm stund.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×