Enski boltinn

Getur ekkert og er hættulegur fyrir liðin sín en samt keyptur fyrir samtals 17 milljarða

Tómas Þór Þórðarson skrifar
David Luiz hefur spilað með stórum liðum í stórum deildum og þénað mikið sama hvað er sagt um hann.
David Luiz hefur spilað með stórum liðum í stórum deildum og þénað mikið sama hvað er sagt um hann. vísir/getty
Brasilíski miðvörðurinn David Luiz samdi í gær við Chelsea öðru sinni á sínum ferli en enska félagið borgar Paris Saint-Germain 34 milljónir punda fyrir leikmanninn sem það keypti á 50 milljónir punda fyrir tveimur árum.

Sjá einnig:Ensku félögin eyddu ríflega einum milljarði punda

Þetta er í annað sinn sem Chelsea kaupir David Luiz á lokadegi félagaskipta en Lundúnarliðið borgaði 25 milljónir punda fyrir hann frá Benfica 31. janúar 2011. Hann spilaði þá í þrjú ár með Chelsea áður en hann var seldur til Parísar.

Sitt sýnist hverjum um þessi kaup Chelsea en þessi brasilíski varnarmaður hefur ekki alltaf heillað sparkspekinga, hvorki með félagsliði sínu eða brasilíska landsliðinu.

Þessi hárprúði miðvörður sem getur einnig spilað sem varnarsinnaður miðjumaður þykir stundum hreinlega ekki alveg í takt við leikinn og gerir stundum alveg ævintýraleg mistök sem kosta liðin hans mörk og leiki.

BBC tók saman tilvitnanir fjögurra fyrrverandi atvinnu- og landsliðsmanna sem nú starfa sem sparkspekingar um Luiz.

Jamie Redknapp: „Hann er dragbítur fyrir liðið sitt og alltof villtur.“

Alan Hansen: „Hann er hvatvís og lætur draga sig úr úr stöðu endalaust. Hann sækir fram á við þegar hann þarf að fara til baka og fer til baka þegar hann á að sækja.“

Gary Lineker: „David Luiz er ekki góður varnarmaður og hann verður það aldrei.“

Roy Keane: „Það lítur út eins og hann viti ekki hvað hann er að gera“

Ferill David Luiz endurspeglar engan vegin þessi orð því hann hefur nú verið keyptur til Benfica, Chelsea, PSG og Chelsea aftur fyrir samtals 110 milljónir punda eða því sem nemur 17 milljörðum íslenskra króna.

Hann hefur á sínum ferli unnið portúgölsku úrvalsdeildina einu sinni, enska bikarinn, Evrópudeildina og Meistaradeildina með Chelsea. Þá er hann tvöfaldur franskur meistari og bikarmeistari með PSG.

Luiz á að baki 55 leiki með brasilíska landsliðinu en með því hann vann hann álfukeppnina á heimavelli árið 2013 og komst í undanúrslit HM 2014 þar sem hann átti reyndar stóra sök á 7-1 tapi Brasilíu gegn Þýskalandi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×