Enski boltinn

Faðir Neymars segir að Man. Utd hafi boðið 140 milljónir punda í soninn í fyrra

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Neymar hefur farið á kostum með Börsungum á tímabilinu.
Neymar hefur farið á kostum með Börsungum á tímabilinu. vísir/getty
Manchester United gerði Barcelona hvorki meira né minna en 140 milljóna punda tilboð í brasilíska framherjann Neymar síðasta sumar.

Þessu hélt faðir hans fram í dómsal á Spáni í vikunni, en 140 milljónir punda eru 26 milljarðar íslenskra króna.

Neymar eldri þurfti að bera vitni í dómsmáli gegn sér og syni sínum í vikunni og sagði þá frá því að ónafngreint lið gerði slíkt risatilboð í soninn.

Hann fór svo degi síðar í útvarpsviðtal á spænsku stöðinni COPE og nafngreindi félagið: „Manchester United er liðið sem bauð 140 milljónir punda í Neymar,“ sagði hann.

Hefðu kaupin gengið í gegn væri Neymar lang dýrasti fótboltamaður sögunnar, en Gareth Bale er sá dýrasti í dag. Velski framherjinn var keyptur til Real Madrid fyrir 85 milljónir punda.

Manchester United hefur ekki tjáð sig um orð Neymars eldri, en sonur hans hefur verið orðaður við enska félagið undanfarna mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×