Enski boltinn

Klopp efstur á óskalistanum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Jürgen Klopp var vinsæll hjá Dortmund.
Jürgen Klopp var vinsæll hjá Dortmund. Vísir/Getty
Enskir fjölmiðlar fullyrða í dag að Þjóðverjinn Jürgen Klopp sé efstur á óskalista forráðamanna Liverpool um að taka við starfi knattspyrnustjóra félagsins eftir að Brendan Rodgers var rekinn í gær.

Rodgers var látinn fara eftir að Liverpool gerði 1-1 jafntefli við Everton en Liverpool hefur aðeins unnið einn af síðustu níu leikjum sínum.

Enska úrvalsdeildin er nú komin í landsleikjahlé og er það ætlun eigenda félagsins að ráða nýjan knattspyrnustjóra áður en hún fer aftur af stað. Liverpool mætir Tottenham þann 17. október.

Klopp og Ítalinn Carlo Ancelotti hafa einna helst verið orðaðir við starfið en báðir eru án félags. Klopp var lengi hjá Dortmund við góðan orðstír og Ancelotti stýrði Real Madrid þar til í sumar.

Ensku blöðin slá því flest upp í dag að Klopp sé líklegasti arftaki Rodgers en BBC fullyrðir að samningur þess efnis sé ekki í höfn. Þá er fullyrt á vef ESPN að Ancelotti myndi líklega hafna starfstilboði frá Liverpool en hann hafði ekki hugsað sér að taka við nýju félagi fyrr en næsta sumar.

Sumir veðbankar í Englandi hættu að taka við veðmálum þess efnis í gærkvöldi að Klopp verði næsti knattspyrnustjóri Liverpool.


Tengdar fréttir

Klopp ekki til í Mexíkó

Jürgen Klopp hafnaði því á dögunum að taka við mexíkóska landsliðinu í fótbolta.

Rodgers rekinn frá Liverpool

Brendan Rodgers varð í dag fyrsti þjálfarinn sem var rekinn í ensku úrvalsdeildinni á þessu tímabili en hann var rekinn frá Liverpool eftir rúmlega þrjú ár í starfi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×