Erlent

Fjöldi látinna komin yfir hundrað

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/AFP
Fjöldi látinna í Tianjin í Kína hefur nú stokkið úr 85 í 104, samkvæmt ríkisreknum fjölmiðlum þar í landi. Forseti Kína vill að tekið verði á öryggi á vinnustöðum í landinu. Xi Jinping sagði að Kínverjar ættu að læra af þeim lexíum sem greitt væri fyrir með blóði.

Á vef Reuters fréttaveitunnar segir að búið sé að staðfesta blásýrumengun á svæðinu þar sem gífurlega stórar sprengingar urðu á miðvikudaginn. Íbúar borgarinnar notast við grímur en efnið er banvænt. Ekki liggur þó fyrir í hve miklu magni það fannst eða á hve stóru svæði. Embættismenn neituðu að ræða málið á blaðamannafundi í dag.

Rúmlega 200 hermenn úr efnavopna- og kjarnorkudeildum kínverska hersins eru nú á svæðinu ásamt starfsmönnum Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar. Vinna þeir að því að kanna umfang mengunarinnar.

Forsvarsmenn fyrirtækisins sem rekur vöruhúsið þar sem sprengingarnar urðu eru sagðir hafa brotið öryggisreglur. Í vöruhúsinu voru geymd eldfim og hættuleg efni. Samkvæmt reglum varðandi frágang slíkra efna þurfa vöruhús að vera minnst kílómetra frá opinberum byggingum, hraðbrautum, lestarteinum og iðnaðarsvæðum.

Samkvæmt Sky News var umrætt vöruhús þó eingöngu í 500 metra fjarlægð frá bæði hraðbraut og stóru fjölbýlishúsi.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×