Erlent

Rýma nágrenni sprenginganna vegna mengunar

Samúel Karl Ólason skrifar
Nú er staðfest að 85 létu lífið í sprengingunum.
Nú er staðfest að 85 létu lífið í sprengingunum. Vísir/EPA
Yfirvöld í Kína hafa skipað íbúum hafnarborgarinnar Tianjin að rýma svæðið þar sem gríðarlega stórar sprengingar urðu á miðvikudaginn. Um er að ræða svæði með þriggja kílómetra radíus og var gripið til þessa ráðs vegna gruns um blásýrumengun í andrúmsloftinu.

Samkvæmt BBC hefur nú verið staðfest að 85 létu lífið í sprengingunum. Rúmlega 720 manns slösuðust og þar af 25 sem eru í alvarlegu ástandi.

Fjölmiðillinn Xinhua sagði frá því í morgun að manni hefði verið bjargað úr rústunum í um 50 metra fjarlægð frá miðju sprenginganna. Sá gat talað við björgunarmenn þegar hann fannst og er hann nú á sjúkrahúsi.

Enn loga eldar í borginni og í morgun blossaði upp nýr eldur sem eyðilagði fleiri bíla við höfnina. Þúsundir nýrra bíla sem biðu flutnings eyðilögðust í upprunalegu sprengingunum.

Fjölda fólks er enn saknað. Tugir ættingja sem bíða svara reyndu að stöðva blaðamannafund í morgun og fóru fram á að fá upplýsingar um ættingja sína. „Við höfum farið og leitað á öllum sjúkrahúsum borgarinnar og höfum ekki fundið þau,“ segir Wang Baoxia við Reuters fréttaveituna. Hann leitar bróður síns.

„Það hefur enginn embættismaður viljað ræða við okkur. Ekki einn.“


Tengdar fréttir

Umhverfistjón gæti orðið langvarandi

Sprengingarnar í Tianjin urðu í vöruhúsi, þar sem hættuleg efni voru geymd. Eiturgufur hafa greinst í andrúmsloftinu. Að minnsta kosti 50 manns létu lífið og tugir til viðbótar eru í lífshættu. Flytja þurfti meira en 700 manns á sjúkrahús.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×