Enski boltinn

Di María í læknisskoðun hjá PSG í næstu viku

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Dvöl Di María á Old Trafford var ekki löng.
Dvöl Di María á Old Trafford var ekki löng. vísir/getty
Ángel di María, leikmaður Manchester United, er á leið til Frakklandsmeistara Paris Saint-Germain, en hann er búinn að semja um kaup og kjör við franska liðið samkvæmt frétt RMC.

Di María er sagður skrifa undir fjögurra ára samning hjá PSG, en hann fer til Parísar á mánudag eða þriðjudag og gengst þá undir læknisskoðun. Þetta kemur fram í frétt ESPN.

Fréttamiðlarnir RMC, L'Equipe og Daily Mail greina allir frá því að kaupverðið sé um 44,2 milljónir punda sem er töluvert frá þeim 59,7 milljónum sem Manchester United borgaði fyrir hann síðasta sumar.

Ed Woodward, stjórnarformaður Manchester United, virðist þó hafa gert ágætlega við samningaborðið því upphaflegt tilboð Parísarliðsins var vel undir 30 milljónum punda.

Manchester United tapar um 15 milljónum punda á kaupverðinu og um öðrum tíu þegar laun Argentínumannsins eru meðtalin fyrir síðasta ár. Heildartap United á leikmanninum verður því um 25 milljónir punda.

Ángel di María mætti ekki í æfingaferð Manchester United til Bandaríkjanna síðasta föstudag eins og til stóð og veit enginn hvar hann er.

Sala á honum mun væntanlega gulltryggja kaup United á spænska sóknarmanninum Pedro frá Barcelona.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×