Enski boltinn

Van Gaal um Di Maria: "Hann var ekki í flugvélinni"

Anton Ingi Leifsson skrifar
Di Maria í leik með United.
Di Maria í leik með United. vísir/getty
Angel Di Maria, stórstjarna Manchester United, er enn ekki kominn til móts við liðið í Bandaríkjunum, en United er þar í æfingar- og keppnisferðalagi.

Di Maria er sagður vera að ganga í raðir PSG á næstu tveimur sólahringum fyrir rúmlega 46 milljónir punda, en bæði félögin eru í Bandaríkjunum um þessar mundir.

„Nei,” svaraði van Gaal ákveðinn þegar hann var spurður hvort Di Maria hafi flogið með til San Jose.

„Ég heyrði að hann hafi ekki verið í flugvélinni. Ég get ekki sagt neitt. Hann var ekki í flugvélinni.”

„Marcus Rojo var einnig ekki í flugvélinni, en það var vegna vegabréfsvandræða. Það veit ég, en með Di Maria veit ég ekki,” sagði van Gaal hissa.

Di Maria hefur þrálátlega verið orðaður við frönsku meistaranna í PSG, en PSG er einnig í æfingarferðalagi í Bandaríkjunum.

„Ég hef engar opinberar fréttir. PSG er að leita að sóknarmanni. Verður það Di Maria? Ég vona það,” sagði Laurent Blanc, stjóri PSG, í samtali við fjölmiðla eftir jafntefli við Chelsea.

„Di Maria mun líklega koma til Bandaríkjanna, en til hvaða liðs? Hann spilar fyrir United á þessum tímapunkti og ég vona ef það breytist að þá komi hann til okkar. Við verðum að vera þolinmóðir aðeins lengur,” bætti Blanc við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×