Erlent

Barist um náð drottningar í Bretlandi

Heimir Már Pétursson skrifar
Fullvíst er talið að samsteypustjórn Íhaldsflokksins og Frjálslyndra demókrata í Bretlandi falli í kosningum sem fram fara í landinu í dag. Mjög mjótt er á munum milli stóru flokkanna sem munu að öllum líkindum þurfa stuðning annarra til að ná völdum.

Bretum er almennt ekki vel við samsteypustjórnir enda heyrir það til undantekninga að annað hvort Íhaldsflokkurinn eða Verkamannaflokkurinn nái ekki hreinum meirihluta á þingi. Þetta má rekja til kosningakerfisins, sem byggir á einmenningskjördæmum þannig að atkvæði greidd frambjóðendum sem ekki ná kjöri í sínu kjördæmi falla dauð niður og nýtast ekki flokkunum.

Samsteypustjórn David Camerons leiðtoga Íhaldsflokksins og Nick Glegg leiðtoga Frjálsra demókrata mun að öllum líkindum ekki halda meirihluta sínum. Fylgistap demókratanna er reyndar svo mikið að allsendis óvíst er að leiðtogi flokksins nái yfirleitt kjöri.

Ed Milliband leiðtoga Verkamannaflokksins mun heldur ekki takast að ná meirihluta samkvæmt könnunum aðallega vegna mikils fylgistaps flokksins í Skotlandi. En segja má að Skotar hefni þess að hafa ekki náð sjálfstæði í þjóðaratkvæðagreiðslu í fyrra, með því að storma inn á breska þingið með jafnvel alla þingmenn Skotlands á þinginu.

Um 50 milljónir manna eru á kjörskrá og kjörstöðum lokar klukkan níu að íslenskum tíma. Þá munu allar stóru bresku sjónvarpsstöðvarnar birta útgönguspár sínar um úrslitin.


Tengdar fréttir

Bretar kjósa til þings

Fylgið virðist ætla að skiptast hnífjafnt milli Íhaldsflokksins og Verkamannaflokksins í þingkosningum í Bretlandi, sem haldnar verða í dag. Hvorugum flokknum er spáð hreinum þingmeirihluta, ef marka má skoðanakannanir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×