Erlent

Bein útsending: Kosningarnar í Bretlandi

Atli Ísleifsson skrifar
Ed Miliband, leiðtogi Verkamannaflokksins og David Cameron, forsætisráðherra og leiðtogi Íhaldsflokksins.
Ed Miliband, leiðtogi Verkamannaflokksins og David Cameron, forsætisráðherra og leiðtogi Íhaldsflokksins. Vísir/AFP
Fleiri milljónir Breta hafa mætt á kjörstað í dag en þar sem meðal annars er kosið til þings.

Kjörstöðum verður lokað klukkan 21 að íslenskum tíma og er búist við að niðurstöður liggi fyrir í fyrstu kjördæmunum um klukkan 23. Reiknað er með að endanlegar niðurstöður kosninganna liggi fyrir síðdegis á morgun.

Fylgjast má með beinni útsendingu bresku sjónvarpsstöðvarinnar Sky að neðan.

Flókin staða bíður

Allt stefnir í óvenju flókna stöðu í breskum stjórnmálum þegar búið verður að telja úr kjörkössunum.

Kosið er um 650 sæti á breska þinginu, um níu þúsund sæti í sveitarstjórnum, auk þess að borgarstjórar verða kosnir í Bedford, Copeland, Leicester, Mansfield, Middlesbrough og Torbay. Alls eru um 50 milljónir manna á kjörskrá.

Verkamannaflokki Eds Miliband hefur ekki tekist nýta sér fimm ár í stjórnarandstöðu til að tryggja sér sigur. Honum er ekki spáð nema rúmlega þriðjungi atkvæða, eða álíka miklu og Íhaldsflokki Davids Cameron, sem hefur skapað sér óvinsældir með ströngum sparnaðaraðgerðum sem ekkert lát er sjáanlegt á.

Frjálslyndir farið illa úr stjórnarsamstarfinu

Samstarfsflokkurinn í samsteypustjórn Camerons, Frjálslyndi flokkurinn, hefur farið illa út úr stjórnarsamstarfinu og virðist ekki ætla að fá nema níu prósent atkvæða, eða þar um bil.

Nick Clegg, leiðtogi frjálslyndra, getur því varla einu sinni boðið Cameron eða Miliband upp á samstarf í samsteypustjórn, því tveggja flokka stjórn með frjálslyndum nær varla þingmeirihluta.

Þá kemur væntanlega til kasta Skoska þjóðarflokksins, sem hefur samkvæmt skoðanakönnunum þvílíka yfirburðastöðu í Skotlandi að Nicola Sturgeon, leiðtogi flokksins, getur ráðið úrslitum um það hvort næsta stjórn verður starfhæf. Og hún hefur heitið því að koma Íhaldsflokknum frá völdum.

Kemur saman 18. maí

Nýtt þing kemur saman 18. maí næstkomandi. Hafi Cameron þá ekki tekist að mynda stjórn er ætlast til þess að hann segi af sér.

Ný stjórn þarf svo að vera tilbúin með lista yfir frumvörp, sem lögð verði fram á þingi næsta árið, fyrir 27. maí. Að minnsta kosti er fastlega reiknað með því að Elísabet drottning lesi þennan dag upp þennan lista í hinni árlegu ræðu sinni á þinginu, sem jafnframt er stefnuræða stjórnarinnar.

Kosningakerfið í Bretlandi hefur oftast tryggt annaðhvort Íhaldsflokknum eða Verkamannaflokknum hreinan þingmeirihluta. Þetta virðist þó vera að bregðast annað skiptið í röð.

Í síðustu kosningum, árið 2010, náði hvorugur flokkurinn meirihluta, þannig að Íhaldsflokkurinn átti ekki annars kost en að mynda samsteypustjórn með Frjálslynda flokknum. Þetta virðist sumsé ætla að endurtaka sig í dag.

Frá því nokkru fyrir seinna stríð er aðeins eitt annað dæmi um að þingkosningar í Bretlandi hafi ekki skilað hreinum þingmeirihluta neins flokks, en það var árið 1974.


Tengdar fréttir

Sturgeon stefnir í lykilstöðu

Þótt Skotar hafi í haust fellt helsta baráttumál Skoska þjóðarflokksins í þjóðaratkvæðagreiðslu um aðskilnað frá Bretlandi þá stefnir allt í að flokkurinn hreppi nánast öll þingsæti Skota á breska þinginu í þingkosningunum næsta fimmtudag.

Bretar kjósa til þings

Fylgið virðist ætla að skiptast hnífjafnt milli Íhaldsflokksins og Verkamannaflokksins í þingkosningum í Bretlandi, sem haldnar verða í dag. Hvorugum flokknum er spáð hreinum þingmeirihluta, ef marka má skoðanakannanir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×