Innlent

Samtök iðnaðarins: Eðlilegra að málið liggi frekar kyrrt

Atli Ísleifsson skrifar
Almar Guðmundsson er framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins.
Almar Guðmundsson er framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins. Vísir/SI/Getty
„Svo ég vitni í ályktun Iðnþings þá kemur þar fram að ljúka beri aðildarviðræðum við ESB og þjóðin ráði úrslitum,“ segir Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, í samtali við Vísi, aðspurður um afstöðu samtakanna til yfirvofandi tillögu utanríkisráðherra um að aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu verði dregin til baka.

Almar segir ályktunina hafa verið samþykkta á Iðnþingi í mars á síðasta ári þegar sama mál var í hámæli. „Áður en til Iðnþings kom sendi stjórn frá sér ályktun sem var á sömu nótum. Að menn telji ekki rétt að slíta viðræðunum og mikilvægt sé að aðildarviðræður verði frekar leiddar til lykta. Í framhaldi af þessu tvennu þá skrifuðu samtökin umsögn sem var á sömu nótum eftir að þingsályktunartillaga ráðherrans kom fram. Við höfum verið mjög skýr að við teljum ekki rétt að slíta viðræðunum og að mikilvægt sé að leiða viðræðurnar til lykta, hver svo sem endanleg niðurstaða verður.“

Almar segir lýðræðislegustu leiðina vera að þjóðin komi að beint að ákvörðun málsins. „Málið er viðkvæmt og mikilvægt er að það komi fram að innan Samtaka iðnaðarins eru einnig skoðanir skiptar um Evrópusambandið sem slíkt og hvaða möguleika við eigum í samningum. Þannig að eina leiðin til að leiða það til lykta er einmitt að vera í stöðu til að meta það og enda það þá með þjóðaratkvæðagreiðslu.“

Sjá einnig: Samtök atvinnulífsins: Skynsamlegast og farsælast að ljúka aðildarviðræðum

Að sögn Almars er Ísland í samkeppni við önnur lönd, bæði um umhverfi og starfskrafta. „Eitt af því sem þar kemur við sögu er fyrirsjáanleiki og gjaldeyrisstefna almennt. Gjaldeyrismálin er þá einn þátturinn sem mótar afstöðu samtakanna. Það er auðvitað líka mjög mikilvægt fyrir svona opið hagkerfi eins og Ísland – það er að segja opið í þeim skilningi að við erum bæði mjög útflutnings- og innflutningsdrifin – og þá þurfum við að hugleiða hagsmuni okkar út frá því. Við getum auðvitað ekkert fullyrt að Evrópusambandið sé besti kosturinn þar en miðað við hvar við erum stödd núna þá eru mjög sterk rök fyrir því að það sé eðlilegt að ræða þann kost meðfram öðrum.

Það teljum það vera mjög afdrifaríka ákvörðun að slíta viðræðunum þó að við verðum auðvitað að hafa skilning á því að innan ríkisstjórnarinnar eru meiningar á lofti sem eru kannski ekki mjög hliðhollar Evrópusambandinu. Það er þá eðlilegra að málið liggi kyrrt frekar en að slíta þessu formlega.“

Sjá einnig: Öll vinnan við ESB-umsóknina nýtist sé pólitískur vilji til þess

Þannig að þið mynduð mótmæla slíkri tillögu utanríkisráðherra?

„Það hefur verið afstaðan hingað til. Þegar tillagan kemur upp munum við móta afstöðuna aftur. Ég get ekki talað fyrir stjórnina en afstaða okkar í fyrra var í það minnsta mjög skýr.“


Tengdar fréttir

Færum aftur á byrjunarreit

Afstaða ESB er óbreytt hvað varðar aðildarumsókn Íslands. Sendiherra ESB segir breytingar á sambandinu ekki skaða það starf sem þegar hafi verið unnið í samningum. Ný fiskveiðistefna og fjármálaeftirlit gagnist Íslandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×