Dómur verður kveðinn upp í meiðyrðamáli Gunnars Þorsteinssonar gegn Ástu Sigríði Knútsdóttur, Sesselju Engilráð Barðdal og Vefpressunnar ehf. í Héraðsdómi Reykjavíkur á morgun.
Málið tengist ásökunum á hendur Gunnari, sem oft er kenndur við Krossinn, þess efnis að hann hafi áreitt sjö konur í Krossinum. Gunnar hefur ávallt haldið því fram að þessar ásakanir tengist pólitík og valdabaráttu í söfnuðinum og haldið fram sakleysi sínu. Pressan birti nokkrar fréttir af þessum ásökunum, sú fyrsta var 23. nóvember 2010 og krafðist Gunnar þess að vefmiðillinn drægi fréttirnar til baka en þáverandi ritstjóri, Steingrímur Sævarr Ólafsson, sagði miðilinn standa við fréttirnar. Í kjölfar þessa kærði svo Gunnar.
„Ég nálgast morgundaginn með æðruleysi og það er sannarlega bæn mín og von að réttlætinu verði fullnægt og sannleikurinn sigri. Ég þakka þeim fjölmörgu sem ekki hafa lagt trúnað á þann málatilbúnað sem hefur verið soðinn saman gegn mér og bið um áframhaldandi stuðning ykkar og bæn," segir Gunnar á Facebook síðu sinni.
Aðalmeðferð málsins fór fram í Héraðsdómi Reykjavíkur 20. maí síðastliðinn í sal 101 og var opin almenningi. Færri komust inn í salinn en vildu, en salurinn er sá stærsti í Héraðsdómi Reykjavíkur.
Dómurinn verður kveðinn upp á morgun klukkan 14 í Héraðsdómi Reykjavíkur.