Erlent

Ómögulegt að greina dánarorsök eiganda ferjunnar

Bjarki Ármannsson skrifar
Löng og mikil leit var gerð að auðkýfingnum.
Löng og mikil leit var gerð að auðkýfingnum. Vísir/AP
Yfirvöld í Suður-Kóreu segjast ekki geta greint dánarorsök auðkýfingsins Yoo Byung-eun, eiganda Sewol-ferjunnar sem sökk í Apríl og kostaði rúmlega þrjú hundruð manns lífið.

Lögregla greindi frá því í síðustu viku að lík sem fannst þann 12. júní síðastliðinn væri af Yoo sem hafði þá lengi verið eftirlýstur í tengslum við ferjumálið. Nú segja hins vegar sérfræðingar sem stóðu að krufningu líksins að ómögulegt sé að komast að því hvað dró hann til dauða.

BBC greinir frá. Að sögn yfirvalda var lík Yoo illa rotnað og engin leið að meta hvort hann hafi hlotið banasár eða dáið úr veikindum. Þó hefur verið útilokað að dánarorsökin hafi verið eitur eða eiturlyf.

Yoo átti fyrirtækið sem rak Sewol-ferjuna sem sökk þann 16. Apríl síðastliðinn. Allir farþegar ferjunnar létu lífið, þar af fjölmargir framhaldsskólanemar. Rannsókn leiddi í ljós að hún var ofhlaðin og að henni hefði verið breytt ólöglega til að geta rúmað fleiri farþega og farangur. Lögregla vildi ná Yoo til yfirheyrslu og hefði hann líklega verið kærður fyrir fjárdrátt og glæpsamlega vanrækslu.

Saksóknarar hafa greint frá því að Yoo slapp við handtöku með því að fela sig í fataskáp á sumarheimili sínu. Lík milljarðamæringsins fannst að lokum á plómuekru í tveggja og hálfs kílómetra fjarlægð frá húsinu ásamt nokkrum áfengisflöskum. Lögregla hefur verið gagnrýnd fyrir að tengja ekki líkið, sem var geymt í líkhúsi í heilar sex vikur, við leitina að Yoo.


Tengdar fréttir

Börnin reyndu að flýja ferjuna í örvæntingu

Mörgum barnanna sem voru um borð í farþegaferjunni Sewol var sagt að halda kyrru fyrir þar sem þau voru þegar ferjan byrjaði að sökkva í því skyni að tryggja öryggi þeirra.

Enn leitað að eftirlifendum

Björgunarmenn við suðvesturströnd Suður-Kóreu leita enn að eftirlifendum eftir að ferjan Sewol sökk á miðvikudaginn. Alls voru 470 farþegar um borð, stór hluti þeirra nemendur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×