Enski boltinn

Gylfi í Messunni: Gerbreyttist ekki við komuna til Swansea

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Velska liðið Swansea hefur aldrei byrjað betur í ensku úrvalsdeildinni en nú. Landsliðsmaðurinn Gylfi Þór Sigurðsson á stóran þátt í því en hann skoraði annað marka sinna manna í 2-1 sigrinum á Arsenal í gær - stórglæsilegt mark beint úr aukaspyrnu.

Gylfi skoraði einnig sigurmark Swansea gegn Manchester United í fyrstu umferð tímabilsins en hefur þar að auki lagt upp fjölda marka fyrir liðsfélaga sinna.

Guðmundur Benediktsson og félagar í Messunni ræddu frábæra frammistöðu Gylfa í Messunni í kvöld og sýndu einnig viðtal sem Eiríkur Stefán Ásgeirsson tók við Gylfa út í Belgíu í dag.

„Það er auðvitað mjög skemmtilegt þegar mörkin koma gegn stóru liðunum. Það kryddar þetta svolítið,“ segir Gylfi við Eirík Stefáns en Gylfi er hæstánægður með gengi sitt og liðsins til þessa á tímabilinu.

„Auðvitað er langt eftir en ég býst við að ég bæti mig enn meira, bæði með Swansea og landsliðinu,“ segir miðjumaðurinn öflugi.

Swansea var í vandræðum vegna meiðsla og leikbanna fyrir leikinn gegn Arsenal í gær en náði engu að síður að vinna eftir að hafa lent marki undir. Gylfi segir leikmenn sem hafi að miklu leyti staðið fyrir utan leikmannahóp Swansea hafi komið sterkir inn.

„Þetta er það langt tímabil og það verða alltaf einhverjir sem þurfa að koma inn á vegna meiðsla og annars slíks. Þeir þurfa að vera tilbúnir.“

Gylfi neitar því ekki að þessi öfluga byrjun hafi komið sér á óvart. „Að vissu leyti en við höfum auðvitað trú á því sem við erum að gera. Næst er erfiður leikur gegn Manchester City en eftir hann eru nokkrir leikir sem við eigum möguleika á vinna og vonandi tekst okkur þá að styrkja stöðu okkar í deildinni enn frekar.“

Gylfi hrósar knattspyrnustjóranum Garry Monk sem bar ábyrgð á því að Gylfi var keyptur frá Tottenham í sumar. Monk var áður samherji Gylfa er þeir léku saman hjá Swansea á sínum tíma.

„Það var svolítið skrýtið til að byrja með en eftir nokkrar vikur var maður farinn að venjast honum og hans þjálfunarstíl. En mér finnst hann frábær, sérstaklega miðað við að þetta er hans fyrsta starf sem aðalþjálfari. Hann er afar vel skipulagður og leggur mikið í æfingarnar. Vonandi verður áfram hjá Swansea í mörg ár.“

Gylfi hefur blómstrað í sinni uppáhaldsstöðu hjá Swansea eftir að hafa verið að stórum hluta geymdur úti á kanti síðustu tvö árin hjá Tottenham. Gylfi segir þó að hann hafi vitanlega ekki gerbreyst sem leikmaður við það eitt að skipta um félag.

„Mér fannst mjög gaman að vera í Tottenham og taka þátt í stórum leikjum með félaginu. En ég held að allir viti að það fæst mest úr mér á miðjunni en ekki á vinstri kantinum. Ég held að það sé eini munurinn á mér.“

Gylfi segir að fyrir tímabilið hafi markmið Swansea verið að halda sæti sínu í deildinni. „En það má auðvitað setja sér ný markmið þegar vel gengur. Nú skiptir máli að ná góðu skriði í bikarkeppninni og enda meðal tíu efstu - eins ofarlega í töflunni og hægt er.“

Allt viðtalið við Gylfa og umfjöllun strákanna í Messunni má finna í myndbandinu hér fyrir neðan.


Tengdar fréttir

Gylfi: Sérstakt að skora í dag | Myndband

Gylfi Þór Sigurðsson, leikmaður Swansea, skoraði stórglæsilegt jöfnunarmark beint úr aukaspyrnu gegn Arsenal í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag. Hann var að vonum hæstánægður eftir leikinn.

Gylfi valinn í lið umferðarinnar hjá BBC

Gylfi Þór Sigurðsson var einn af aðalmönnunum á bak við sigur Swansea City á Arsenal í ensku úrvalsdeildinni í dag og skoraði meðal annars stórkostlegt mark beint úr aukaspyrnu í 2-1 sigri.

Magnað jöfnunarmark Gylfa gegn Arsenal | Myndbönd

Gylfi Þór Sigurðsson skoraði stórglæsilegt mark beint úr aukaspyrnu þegar Swansea lagði Arsenal að velli í lokaleik 11. umferðar ensku úrvalsdeildarinnar í dag. Með sigrinum komst Swansea upp fyrir Arsenal í 5. sæti deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×