Enski boltinn

Magnað jöfnunarmark Gylfa gegn Arsenal | Myndbönd

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gylfi og Montero fagna marki Íslendingsins.
Gylfi og Montero fagna marki Íslendingsins. Vísir/Getty
Gylfi Þór Sigurðsson skoraði stórglæsilegt mark beint úr aukaspyrnu þegar Swansea lagði Arsenal að velli í lokaleik 11. umferðar ensku úrvalsdeildarinnar í dag. Með sigrinum komst Swansea upp fyrir Arsenal í 5. sæti deildarinnar.

Eftir markalausan fyrri hálfleik komust gestirnir í Arsenal yfir á 63. mínútu með marki Alexis Sánchez. Síle-maðurinn skoraði með skoti úr vítateignum eftir góða sendingu Danny Welbeck. Þetta var sjötta mark Sánchez í síðustu fjórum deildarleikjum Arsenal.

En okkar maður hafði engan áhuga á að tapa leiknum og jafnaði metin með frábæru skoti beint úr aukaspyrnu af 25 metra færi sem Wojciech Szczesny, markvörður Arsenal, átti ekki möguleika á að verja. Gylfi hefur nú skorað þrjú fyrir Swansea á tímabilinu.

Aðeins þremur mínútum síðar skoraði Bafétimbi Gomis sigurmark Swansea, nýkominn inn á sem varamaður. Swansea-menn færðu boltann yfir til vinstri á Ekvadorann Jefferson Montero sem lék einu sinni sem oftar á Calum Chambers og sendi boltann fyrir á Gomis sem skallaði boltann framhjá Szczesny. Lokatölur 2-1, Swansea í vil.

Mörkin í leiknum má sjá hér fyrir neðan.

1-0 fyrir Arsenal Gylfi jafnar leikinn með marki beint úr aukaspyrnu 2-1 fyrir Swansea



Fleiri fréttir

Sjá meira


×