Enski boltinn

Zubizarreta hrósaði Suárez

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Luis Suárez.
Luis Suárez. Vísir/Getty
Yfirmaður knattspyrnumála hjá Barcelona, Andoni Zubizarreta, hrósaði Luis Suárez eftir að Suárez baðst afsökunar á að hafa bitið Giorgio Chiellini í leik Ítalíu og Úrúgvæ á dögunum. Þetta gerði Zubizarreta á blaðamannafundinum þegar Ivan Rakitic var kynntur til leiks sem leikmaður Barcelona.

Suárez vakti heimsathygli þegar hann beit Chiellini en þetta var í þriðja sinn sem hann beit leikmann inn á vellinum. Var hann dæmdur í fjögurra mánaða bann frá allri knattspyrnuiðkun í kjölfari þess en úrúgvæska knattspyrnusambandið kærði ákvörðunina.

Suárez gaf frá yfirlýsingu í gær þar sem hann bað Chiellini afsökunar á hegðun sinni og að hann iðraðist þess að hafa reynt að bíta leikmanninn. Lofaði hann að gera aldrei neitt slíkt inn á fótboltavellinum á ný. Þetta kom án vitneskju Liverpool, félagsliðs Suárez, en hann hefur verið orðaður við Barcelona undanfarnar vikur.

„Hann sýndi auðmýkt með því að viðurkenna mistök og það verður að hrósa honum fyrir það. Það vita allir að hann er frábær leikmaður sem getur leikið í mörgum stöðum en það vita líka allir að hann er samningsbundinn Liverpool,“ sagði Zubizarreta.


Tengdar fréttir

Suarez dæmdur í fjögurra mánaða bann

Luis Suarez var dæmdur í fjögurra mánaða bann frá öllum keppnum fyrir að hafa bitið Giorgio Chiellini í leik Ítalíu og Úrúgvæ á mánudaginn. Bannið nær til félags- og landsliðs Suárez.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×