Fótbolti

Van Gaal: Mexíkó erfiðari andstæðingur en Chile

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Louis Van Gaal á æfingu hollenska landsliðsins.
Louis Van Gaal á æfingu hollenska landsliðsins. Vísir/Getty
Holland mætir Mexíkó í 16-liða úrslitum á HM í fótbolta í Fortaleza í dag.

Louis Van Gaal, landsliðsþjálfari Hollands og verðandi þjálfari Manchester United, segir að Mexíkó verði erfiðari andstæðingur en Chile, sem Holland vann í lokaleik riðlakeppninnar.

"Chile er með tvo frábæra leikmenn, Alexis Sanchez og Arturo Vidal. Sá síðarnefndi var ekki með gegn okkur og það var vatn á okkar myllu," sagði Van Gaal.

"Ef þú lítur yfir mexíkóska liðið, þá myndi ég segja að það væri betra lið. Það er eini munurinn, því Chile og Mexíkó spila nánast eins. Þau spila á sínum styrkleikum, sínum hæfileikum og eru áköf í að sigra, en þessi ákefð er það besta við fótboltann.

"Mexíkó er aðeins ákafari. Ákefðin skín úr augum allra leikmannnanna sem er frábært að sjá," sagði Van Gaal sem sagði ennfremur að miðjumaðurinn Leroy Fer gæti ekki leikið með í dag vegna meiðsla og að varnarmaðurinn Bruno Martins Indi yrði ekki í byrjunarliðinu vegna heilahristingsins sem hann fékk í leiknum í gegn Ástralíu í riðlakeppninni.

"Þú veist aldrei hvenær leikmaður hefur alveg jafnað sig á svona meiðslum. Martins Indi æfði með okkur í gær, en það er ekki þar með sagt að hann geti leikið í þessum erfiðu aðstæðum, í hita og raka.

"Ég ætla því ekki að tefla á tvær hættur, en Martins Indi getur verið varamaður og spilað í 20 mínútur eða svo. Hann verður á bekknum," sagði Van Gaal að lokum.


Tengdar fréttir

Van Persie: Æðislegt að leika með Robben

Arjen Robben hefur farið á kostum með hollenska landsliðinu í heimsmeistarakeppninni í Brasilíu og nýtur samherji hans í framlínunni, Robin van Persie, þess að leika með honum.

Robben: Fyrir þetta lifir maður

"Þetta er ástæðan fyrir því að maður spilar fótbolta. Fyrir þetta lifir maður,“ sagði Arjen Robben eftir 5-1 sigur Hollands á Spáni á HM í kvöld.

Hollendingar lentu í vandræðum gegn Áströlum

Hollendingar lentu í töluverðum vandræðum í 3-2 sigri á Ástralíu í fyrsta leik dagsins á Heimsmeistaramótinu. Ástralía komst í 2-1 um í upphafi seinni hálfleiks en Hollendingar náðu að snúa taflinu við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×