Enski boltinn

Van der Sar: Ef einhver ræður við þessa stöðu er það Van Gaal

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Van Gaal er staddur í æfingabúðum með hollenska landsliðið.
Van Gaal er staddur í æfingabúðum með hollenska landsliðið. Vísir/Getty
Edwin van der Sar, hollenski markvörðurinn sem vann ensku úrvalsdeildina fjórum sinnum með Manchester United, telur að liðið geti orðið meistari strax á næstu leiktíð.

Liverpool, undir stjórn BrendanRodgers, lenti í sjöunda sæti leiktíðina 2012/2013 en stóð sig frábærlega á nýliðnu tímabili og hafnaði í öðru sæti. Það var á lokasprettinum komið í kjörstöðu í titilbaráttunni en fór illa að ráði sínu og kastaði frá sér Englandsmeistaratitlinum.

„Það verður erfitt að komast úr sjöunda sæti og í það fyrsta en Liverpool tókst það næstum því og ég tel United hafa meiri gæði í sínu liði,“ segir Van der Sar í viðtali við Daily Mirror.

„Van Gaal þarf að vera mjög skýr við leikmennina um hvað hann vill fá frá þeim. Það er frábært að sjá RyanGiggs halda áfram hjá félaginu og verða aðstoðarstjóri. Van Gaal getur fengið góð ráð hjá honum og hann mun skynja hvernig tilfinningin er í búningsklefanum.“

Maðurinn sem á að rífa United aftur upp í hæstu hæðir er samlandi Van der Sars, Louis van Gaal, en markvörðurinn var undir stjórn hans hjá Ajax þar sem þeir unnu Meistaradeild Evrópu 1995 og þá stýrði Van Gaal honum einnig hjá hollenska landsliðinu. Hann hefur fulla trú á sínum gamla þjálfara.

„Auðvitað verður þetta erfitt fyrir Van Gaal þar sem hann verður á HM í sumar en ef einhver ræður við þessa stöðu, þá er það Van Gaal. Afrek hans tala fyrir sig sjálf. Hann hefur unnið titil í öllum þeim löndum sem hann hefur starfað í,“ segir Edwin van der Sar.


Tengdar fréttir

Rio: Van Gaal hentar Man. Utd

Miðvörðurinn segir hollenska þjálfarann hafa þá eiginleika sem þarf til að stýra félagi eins og Manchester United.

Ronald de Boer óttaðist van Gaal

Leikmenn Manchester United munu fá menningarsjokk þegar Louis van Gaal tekur við liðinu í sumar, að sögn Ronald de Boer.

Robbie Fowler: Van Gaal er of gamall

Robbie Fowler, fyrrum framherji Liverpool, efast um þá ákvörðun Manchester United að ráða hinn 62 ára gamla Louis van Gaal sem nýjan knattspyrnustjóra félagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×