Fótbolti

Hollendingar lentu í vandræðum gegn Áströlum

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Vísir/Getty
Hollendingar lentu í töluverðum vandræðum í 3-2 sigri á Ástralíu í fyrsta leik dagsins á Heimsmeistaramótinu. Ástralía komst í 2-1 um í upphafi seinni hálfleiks en Hollendingar náðu að snúa taflinu við.

Flestir bjuggust eflaust við öruggum sigri Hollendinga eftir að hafa slátrað Spánverjum 5-1 á dögunum á meðan Ástralir töpuðu fyrir Chile.

Arjen Robben kom Hollendingum yfir um miðbik fyrri hálfleiks en Ástralirnir voru ekki lengi að svara. Jöfnunarmarkið var af dýrari gerðinni þegar Tim Cahill þrumaði boltanum eftir langa sendingu viðstöðulaust í slánna og inn.

Hvorugu liði tókst að bæta við marki í fyrri hálfleik og fóru liðin inn í hálfleik jöfn. Ástralir komust yfir þegar tíu mínútur voru liðnar af seinni hálfleik þegar Mile Jedinak skoraði af öryggi af vítapunktinum.

Kengúrurnar héldu út í fimm mínúturnar en þá nýtti Robin Van Persie sér mistök í vörn Ástrala og skoraði af stuttu færi. Memphis Depay skoraði sigurmarkið tíu mínútum síðar með langskoti sem Mathew Ryan í marki Ástrala réð ekki við.

Gríðarlega svekkjandi en Ástralir fengu dauðafæri örfáum sekúndum áður en Memphis skoraði sigurmark Hollendinga. Ástralir reyndu að auka sóknarþungann á lokamínútum leiksins en tókst ekki að koma boltanum yfir línuna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×