Fótbolti

Hollendingar hefndu ófaranna og gott betur | Myndir

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Titilvörnin byrjaði skelfilega hjá Spánverjum sem voru kjöldregnir af Hollendingum, 5-1, í fyrsta leik B-riðils.

Þessi lið mættust í úrslitaleiknum fyrir fjórum árum síðan en fáir áttu von á því að Hollendingar, með talsvert breytt lið, ættu mikið roð í ógnarsterkt lið Spánverja.

Spánn vann téðan úrslitaleik, 1-0, með marki Andres Iniesta í uppbótartíma en óhætt er að segja að Hollendingar hafi náð að hefna þeirra ófara í kvöld.

Þeir spænsku byrjuðu þó betur og komust yfir eftir umdeilda vítaspyrnu sem Diego Costa fiskaði um miðjan fyrri hálfleikinn. Xabi Alonso skoraði úr henni af öryggi.

En undir lok fyrri hálfleiksins átti Daley Blind magnaða sendingu frá miðlínu inn í teig Spánverja þar sem Robin van Persie tók hann á lofti og skallaði yfir Iker Casillas, markvörð og landsliðsfyrirliða Spánverja. Mögnuð tilþrif hjá van Persie sem skutlaði sér á eftir boltanum.

Síðari hálfleikur var svo eign Hollendinga frá upphafi til enda. Veislan byrjaði almennilega á 53. mínútu þegar Arjen Robben skoraði eftir aðra stoðsendingu Blind. Stefan De Vrij skoraði svo með skalla af stuttu færi á 64. mínútu og Holland var komið 3-1 yfir.

Casillas gerði svo skelfileg mistök þegar hann nánast afhenti van Persie boltann á silfurfati og eftirleikurinn var auðveldur fyrir þann síðarnefnda.

Arjen Robben innsiglaði svo sigurinn með öðru marki sínu á 80. mínútu og 5-1 sigur Hollands var staðreynd.

Hér fyrir neðan má sjá svipmyndir úr leiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×