Pistorius er ákærður fyrir að myrða Steenkamp, fyrrverandi kærustu sína, en hann skaut hana í gegnum lokaða baðherbergishurð á heimili sínu í Pretoríu í febrúar á síðasta ári. Hann segist hafa haldið að hún væri innbrotsþjófur.

Læknirinn segir hann hafa haft aðra hönd á nára Steenkamp og tvo fingur hinnar í munni Steenkamp. Svo hafi virst sem hann væri að reyna að koma henni til bjargar.
„Ég man að það fyrsta sem hann sagði við mig þegar ég kom var: „Ég skaut hana. Ég hélt hún væri innbrotsþjófur og ég skaut hana.“,“ sagði læknirinn en Steenkamp var ekki með lífsmarki þegar hann skoðaði hana skömmu síðar.
Hann sagðist hafa séð agnir úr heila Steenkamp í blóði hennar en Pistorius hæfði hana í höfuðið. Þá hafi hún einnig verið með skotsár á læri og á upphandlegg. Læknirinn sagði Pistorius hafa verið hágrátandi og sagst lofa því að helga líf sitt guði ef hún lifði af.
Réttarhöldin halda áfram á morgun og eru þau talin munu standa yfir í um þrjár vikur. Pistorius á yfir höfði sér lífstíðarfangelsi verði hann sakfelldur.