Erlent

Nágranni heyrði skelfingaröskur Reevu

Jóhannes Stefánsson skrifar
Réttarhöldin yfir Oscar Pistorius halda áfram í dag.
Réttarhöldin yfir Oscar Pistorius halda áfram í dag. vísir/AFP
Suður-afríski íþróttamaðurinn Oscar Pistorius sagðist fyrir dómi í gær vera saklaus af ásökunum saksóknara um að hafa myrt Reevu Steenkamp, kærustu sína, á Valentínusardaginn í fyrra.

„Það var eitthvað hræðilegt að gerast í húsinu,“ sagði Michelle Burger, vitni í málinu, fyrir rétti í gær. Burger segist hafa heyrt ógnvænleg óp og skothvelli frá íbúð þeirra Pistorius og Steenkamp.

„Hún rak upp skelfingaröskur og bað um hjálp. Síðan heyrði ég karlmann hrópa þrisvar eftir hjálp,“ sagði Burger.

„Skömmu eftir óp hennar heyrði ég fjóra skothvelli,“ bætti Burger við.

Pistorius sat svipbrigðalaus í réttarsalnum í gær og horfði niður í gólfið. Hann hefur alla tíð haldið því fram að dauði Steenkamp hafi verið hræðilegt slys, en hann taldi sig vera að skjóta innbrotsþjóf sem hefði falið sig inni á klósettinu.

Steenkamp varð fyrir þremur skotum sem hæfðu hana í handlegg, mjöðm og höfuð. Hún var úrskurðuð látin á vettvangi.

Takist ákæruvaldinu að sýna fram á ásetning Pistorius um að myrða kærustu sína gæti hann átt yfir höfði sér lífstíðarfangelsi.

Réttarhöldin munu standa yfir í þrjár vikur hið minnsta, en ráðgert er að þau muni taka töluvert lengri tíma í ljósi þess að 107 vitni hafa verið kölluð til í málinu.

Réttarhöldunum er sjónvarpað beint í Suður-Afríku og þau halda áfram í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×