Eyjafréttir greina frá því að David Moyes, knattspyrnustjóri Everton og arftaki Alex Ferguson hjá Manchester United, hafi æft um tíma með Tý í Vestmannaeyjum.
Fram kemur á vefnum að Moyes hafi komið hingað til lands sumarið 1978 í þeim tilgangi að æfa með Tý í Vestmannaeyjum. Hann hafi ætlað að dvelja hér á landi sumarlangt en dvölin hafi styst eftir að honum bauðst atvinnumannasamningur hjá stórliðinu Celtic í Skotlandi.
Ólafur Jónsson, sem hýsti Moyes ungan að aldri á sínum tíma, segir að þetta hafi verið dugnaðarforkur. „Hann vildi hafa hlutina 100 prósent,“ sagði hann meðal annars við Eyjafréttir.
Moyes hóf atvinnumannaferil sinn hjá Celtic og spilaði þar í þrjú ár. Hann spilaði með smærri félögum í Bretlandi eftir það og endaði hjá Preston North End, þar sem hann gerðist svo þjálfari árið 1998. Þaðan fór hann til Everton fjórum árum síðar.
Þess má geta að Kenny Moyes, bróðir David, er mikill Íslandsvinur en hann hefur starfað sem umboðsmaður knattspyrnumanna.
Nýr stjóri United æfði með Tý í Vestmannaeyjum

Tengdar fréttir

Tilkynnt um ráðningu Moyes innan stundar
Fréttamenn CNN segja að Manchester United hafi tilkynnt sér að greint verði frá ráðningu nýs knattspyrnustjóra innan stundar.

Moyes tekur við Manchester United
Breskir fjölmiðlar greindu frá því rétt í þessu að David Moyes yrði knattspyrnustjóri Manchester United næstu sex árin.

Moyes hættir hjá Everton | Vill taka við United
David Moyes verður ekki knattspyrnustjóri Everton á næstu leiktíð. Tíðindin benda sterklega til þess að Skotinn verði kynntur til leiks sem nýr stjóri Manchester United síðar í dag.