Upp­gjörið: Þróttur - Breiða­blik 3-2 | Aftur mis­tókst Blikum að tryggja titilinn

Sesselja Ósk Gunnarsdóttir skrifar
Berglind Björg gerði hvað hún gat.
Berglind Björg gerði hvað hún gat. Vísir/Anton Brink

Þróttur sigraði Breiðablik 3-2 í æsispennandi markaleik á AVIS-vellinum í kvöld. Breiðablik gat með sigri unnið Íslandsmeistaratitilinn en það gekk ekki eftir.

Breiðablik byrjaði leikinn af krafti og voru töluvert meira með boltann. Þróttarar náðu hins vegar að verjast vel og voru ansi hættulegar þegar þær komust í færi.

María Eva Eyjólfsdóttir og Kristín Dís Árnadóttir.Vísir/Anton Brink

Þrótturum tókst að brjóta ísinn á 33. mínútu þegar Unnur Dóra Bergsdóttir skoraði laglegt mark eftir frábæran undirbúning frá Katie Cousins. 1-0 fyrir Þrótti og þannig stóðu leikar í hálfleik.

Það var mikið jafnræði milli liðanna í seinni hálfleik og tókst Breiðablik að jafna metin á 64. mínútu þegar Berglind Björg Þorvaldsdóttir skoraði laglegt skallamark.

Þróttarar náðu aftur forystunni skömmu síðar er Kayla Rollins kom boltanum í netið eftir frábæra fyrirgjöf frá Mist Funadóttur.

Kayla Marie Rollins skilaði sínu. Vísir/Anton Brink

Þremur mínútum síðar var Berglind Björg Þorvaldsdóttir aftur á ferðinni fyrir Breiðablik og jafnaði metin í 2-2. Bæði lið héldu áfram að sækja og ljóst að það var nóg eftir í leiknum.

Þróttarar skoruðu þriðja mark sitt og sigurmark leiksins á 77. mínútu mínútu, eftir fyrirgjöf Mist Funadóttur, en í þetta sinn skallaði Sierra Marie Lelii boltanum í netið.

Mist Funadóttir og Karitas Tómasdóttir.Vísir/Anton Brink

Breiðablik komust þá ofar á völlinn og lágu á Þrótturum sem vörðust vel. Fleiri urðu mörkin þó ekki og Blikar taka titilinn ekki með sér heim í kvöld.

Með sigrinum tyllti Þróttur sér í 2. sæti í bili allavega og eru með 42 stig þegar þrjár umferðir eru eftir.

Atvik leiksins

Þriðja mark leiksins.

Stjörnur og skúrkar

Mollee Swift átti nokkrar glæsilegar vörslur - maður leiksins hjá mér. Kayla Rollins frábær í fremstu línu í dag og skoraði laglegt skallamark. Mist Funadóttir með tvær stoðsendingar og stóð sig vel í hjarta varnarinnar.

Mollee Swift stóð sig með sóma.Vísir/Anton Brink

Stemmning og umgjörð

Góð stemning hérna í Laugardalnum og fín mæting. Það heyrðist vel í stuðningsmönnum Þróttar sem voru mættir til þess að styðja liðið sitt sem berst um annað sætið og Evrópusæti.

Dómarar

Jóhann Ingi Jónsson var á flautunni í kvöld, með honum voru Tomasz Piotr Zietal og Kristofer Bergmann til halds og trausts. Jóhann hefði alveg mátt lyfta gula spjaldinu að minnsta kosti tvisvar í viðbót í leiknum. En þar má nefna snemma í leiknum þegar Kayla Rollins var tekin niður við vítateig Blika.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira