Uppgjör: Valur - Breiðablik 2-1 | Dramatískt sigurmark Vals í uppbótartíma Hörður Unnsteinsson skrifar 10. ágúst 2025 18:32 Valur - Breiðablik Besta Deild Karla Sumar 2025 Vísir / Diego Valur opnaði fimm stiga forskot á toppi Bestu deildar karla í knattspyrnu með því að vinna Breiðablik í 18. umferð deildarinnar í kvöld. Blikar komust yfir í upphafi leiks en tvö mörk eftir hornspyrnur í seinni hálfleik komu Val yfir línuna. Orri Sigurður Ómarsson tryggði sigurinn með skall í uppbótartíma. Valsmenn tróna á toppi Bestu deildarinnar eftir 2-1 endurkomusigur á Breiðabliki í einmunablíðu á Hlíðarenda í kvöld. Aðdragandi leiksins fór að miklu leyti í umræður um frestanir en Blikar spiluðu í Mostar í Bosníu á fimmtudaginn og vonuðust eftir frestun á leiknum í kvöld en þeim varð ekki kápan úr því klæðinu. Blikar byrjuðu leikinn af miklum krafti og hundeltu Valsmenn út um allan völl. Það var mikil orka og barátta í þeim sem Valsmenn virtust ekki alveg tilbúnir í. Þeir fengu hornspyrnu á fimmtu mínútu sem Viktor Karl tók stutt horn og lagði boltann fyrir Höskuld Gunnlaugsson sem sendi hárnákvæma fyrirgjöf beint á kollinn á Damir sem stangaði boltann í hornið fjær. Frábær skalli hjá Damir. Damir fer á fullt í að fagna fyrsta marki leiksins.Vísir / Diego Valsmenn áttu í miklum vandræðum í uppspili sínu framan af leik og það virtist eins og ákefð Blika hafa komið þeim örlítið í opna skjöldu. Valsmenn hafa treyst mikið á skyndisóknirnar það sem af er sumri, leikplan Blika var að freista þess að brjóta á þeim þegar þeir töpuðu boltanum sem gekk fullkomlega upp. Ferðalagið frá Bosníu virtist alls ekki sitja í gestunum sem höfðu tögl og haldir í leiknum í fyrri hálfleiknum og áttu eftir að naga sig í handarbökin að hafa ekki nýtt yfirburða sína í fyrri hálfleik betur. Valsmenn mættu kraftmeiri inn í seinni hálfleikinn og ógnuðu marki Blika strax í fyrstu sókn. Síðari hálfleikurinn var þó fremur tíðindalítill fram að jöfnunarmarki Valsara sem kom 70. Mínútu. Tryggvi Hrafn Haraldsson tók þá hornspyrnu frá vinstri sem sveif inn að marki Blika, þar hitti boltinn á Bjarna Mark Antonssyni sem fleytti boltanum með höfðinu fram hjá Antoni í markinu. Það var spurning hvort brotið hafi verið á Antoni en Vilhjálmur sá ekkert athugavert. Fredrik Schram að hrifsa til sín boltann.Vísir / Diego Það var farið að draga talsvert af Blikaliðinu eftir því sem á leið leikinn. Halldór kom með ferskar lappir af bekknum sem að lífguðu upp á sóknarleik liðsins, en þeir náðu þó ekki að ógna marki Vals að neinu viti í síðari hálfleiknum. Ágúst Orri Þorsteinsson átti tvö fín skot af löngu færi sem Frederik varði þægilega í markinu. Orri Sigurður að stanga boltann í netið og tryggja sigurinn.Vísir / Diego Sigurmark leiksins kom svo í uppbótartíma þegar HK-ingurinn Orri Sigurður Ómarsson skoraði með góðum skalla af markteig eftir aðra hornspyrnu frá Tryggva. Ekki fallegasti fótboltaleikurinn hér á Hlíðarenda í kvöld, en seigla Valsmanna tryggði þeim fimm stiga forystu í Bestu deildinni þegar 9 leikir eru eftir af mótinu. Valsmenn fagna í kvöld og mega það svo sannarlega. Hart var barist. Að sjálfsögðu enda mikið undir.Vísir / Diego Atvik leiksins Mark Valsmanna í uppbótartíma gæti reynst afdrifaríkt í toppbaráttunni þetta sumarið. Klárlega atvik leiksins. Orri Sigurður með góðan skalla inn á markteig eftir hornspyrnu Tryggva Hrafns. Stjörnur og skúrkar Þetta var leikur fastra leikatriða, þrjú mörk eftir hornspyrnur og spyrnur Tryggva Hrafns Haraldssonar skiptu sköpum fyrir Valsmenn hér í kvöld. Það var fátt sem stefndi í sigur Vals og hann er óumdeilanlega maður leiksins fyrir þessar tvær stoðsendingar. Stemming og umgjörð N1 völlurinn skartaði sínu fegursta í veðurblíðunni á höfuðborgarsvæðinu í dag. Það er erfitt að hugsa um eitthvað jafn skemmtilegt en að mæta á fótboltaleik í svona einmunablíðu eins og í kvöld. Stemmingin frábær, þó mun meira sungið úr Blika stúkunni. Umgjörðin er alltaf frábær á Hlíðarenda. Troðfull stúkan fagnaði vel og innilega með sínum mönnum.Vísir / Diego Viðtöl: Tryggvi Hrafn: Ólýsandi að HK-ingurinn sjálfur geri sigurmarkið í lokin Valur - Breiðablik Besta Deild Karla Sumar 2025Vísir / Diego Tryggvi Hrafn Haraldsson lagði upp bæði mörk Valsliðsins í kvöld og var að vonum sáttur með stigin þrjú. „Þessi var eins sætur og þeir geta gerst, sérstaklega af því mér líður ekki eins og hann hafi verið sanngjarn heldur. Ólýsandi að HK-ingurinn sjálfur geri sigurmarkið í lokin, það er fallegt.“ Bæði mörk Vals komu eftir hornspyrnur frá Tryggva. Tryggvi segir að mönnum finnist misskemmtilegt að æfa föstu leikatriðin á æfingarsvæðinu. „Við erum búnir að vera skora mjög mikið úr föstum leikatriðum í sumar og það er búið að skila okkur fullt af stigum. Við eyðum mjög miklum tíma á æfingarsvæðinu í horn og aukaspyrnur, mönnum finnst það misskemmtilegt en menn verða að taka þetta á sig því þetta er algjörlega að skila sér í sumar.“ Valsmenn eru komnir með 5 stiga forystu á toppi deildarinnar. Tryggvi segir Valsmenn þó ekkert mega slaka í. „Það er frábært fyrir sjálfstraustið og sjá að við erum á toppnum á töflunni. Við þurfum að halda áfram að vinna okkar leiki, það er góð tilfinning að vera á toppnum en ef við slökum eitthvað á þá er það bara tímabundið.“ „Mér fannst stuðningsmennirnir troða þessu marki inn“ Túfa þakkaði stuðningsmönnum Vals fyrir að hafa troðið sigurmarkinu inn.vísir / diego Srdjan Tufegdzic, þjálfari Vals, var einkar ánægður með stuðninginn úr stúkunni eftir leik og sagði stuðningsmennina hafa sett sigurmarkið. Í rauninni var það þó Orri Sigurður sem skoraði sigurmarkið, beint upp úr hornspyrnu, alveg eins og þegar Bjarni Mark skoraði jöfnunarmarkið. „Við erum að æfa þetta mikið og eftir síðasta tímabil var markmiðið að bæta okkur bæði varnar- og sóknarlega. Við fengum reyndar mark á okkur eftir tvær mínútur í dag þannig að það er eitthvað sem þarf að halda áfram að æfa enn betur. En það er mikil vinna lögð í þetta og menn verða hungraðri með hverju marki sem þeir skora úr hornspyrnum“ sagði Túfa en tók svo fram að þó hornspyrnurnar hafi skilað sigrinum átti stúkan stóran þátt í honum líka. Stuðningsmennirnir tróðu sigurmarkinu inn „Stúkan var aðalástæðan fyrir því að unnum leikinn á endanum. Langt síðan ég hef séð stúkuna stútfulla af rauðum Valstreyjum. Mikill stuðningur og sérstaklega á lokamínútunum, mér fannst stuðningsmennirnir troða þessu marki inn.“ Túfa trekkti stuðningsmennina líka vel í gang meðan leiknum stóð, lyfti höndum og reif þá upp á lappirnar. „Já Valsarar eru komnir í smá sofandahátt undanfarin ár, við á vellinum og í þjálfarateyminu þurfum alltaf að kveikja í fólkinu… Ég vona að fólk skilji hvað þetta skiptir miklu máli fyrir okkur og núna er bara lokasprettur á tímabilinu eftir. Við þurfum að halda þessum stuðningi og vera með enn fleiri á vellinum.“ Auðvelt að mæta þegar gengur vel Valsmenn hafa sannarlega ástæður til að mæta á völlinn þessa dagana, liðið er í efsta sæti deildarinnar, ósigrað í síðustu átta deildarleikjum og á leið í bikarúrslitaleikinn. „Það er auðvelt að mæta þegar vel gengur en það er ekki langt síðan að það var mikil gagnrýni á okkur og fólk var kannski ekki alveg að sjá leiðina sem við erum í. En núna vona ég innilega að menn séu að fatta að vinnan sem við lögðum inn í vetur og sumar sé að skila sér… Það er hellingur eftir og við þurfum að halda áfram sama hungri, skila sömu vinnu og halda áfram að bæta okkur. Ef við gerum það verður góður endir á tímabilinu.“ Tekur fyrri hálfleikinn á sig Valur var langt á eftir Breiðabliki allan fyrri hálfleikinn og virkaði alls ekki tilbúið í þennan toppslag en Túfa tekur það á sig. „Mikil vonbrigði með það og í rauninni vorum við heppnir að vera bara 1-0 undir eftir 45 mínútur, eitthvað sem ég þarf að skoða því þetta var ekki í lagi. Snerist líka ekki endilega um fótbolta, hausinn var bara ekki í lagi og ég tek þessar 45 mínútur á mig, það var eitthvað sem klikkaði í undirbúningnum. En við fórum vel yfir í hálfleiknum, hvað við þurftum að bæta og breyta til að komast aftur inn í leikinn og það gerðist á endanum. Ég er mjög stoltur af karakternum og hugarfarinu hjá strákunum… Að ná að jafna og halda haus áfram og setja sigurmarkið í uppbótartímanum.“ Virkaði vel að fara hátt og langt Túfa var að lokum spurður út í ummæli Halldórs Árnasonar, þjálfara Breiðabliks, sem sagði það góða ákvörðun hjá Valsmönnum í kringum sjötugustu mínútu að hætta að spila boltanum milli sín og fara frekar hátt og langt. „Já ég fékk eitt stopp í leiknum og talaði aðeins við Frederik. Við ákváðum að brjóta þetta aðeins upp af því að pressan þeirra var góð í dag… Við ákváðum að vera beinskeyttari og svo fengum við líka frábæra varamenn inn. Þeir komu með mikla orku líka, það má ekki gleyma því, allir sem komu inn á lyftu leiknum á hærra plan. Það hjálpaði líka að upp úr þessum löngu boltum komu hornspyrnur og löng innköst, sem sköpuðu hættu undir lokin.“ Besta deild karla Valur Breiðablik Íslenski boltinn Fótbolti
Valur opnaði fimm stiga forskot á toppi Bestu deildar karla í knattspyrnu með því að vinna Breiðablik í 18. umferð deildarinnar í kvöld. Blikar komust yfir í upphafi leiks en tvö mörk eftir hornspyrnur í seinni hálfleik komu Val yfir línuna. Orri Sigurður Ómarsson tryggði sigurinn með skall í uppbótartíma. Valsmenn tróna á toppi Bestu deildarinnar eftir 2-1 endurkomusigur á Breiðabliki í einmunablíðu á Hlíðarenda í kvöld. Aðdragandi leiksins fór að miklu leyti í umræður um frestanir en Blikar spiluðu í Mostar í Bosníu á fimmtudaginn og vonuðust eftir frestun á leiknum í kvöld en þeim varð ekki kápan úr því klæðinu. Blikar byrjuðu leikinn af miklum krafti og hundeltu Valsmenn út um allan völl. Það var mikil orka og barátta í þeim sem Valsmenn virtust ekki alveg tilbúnir í. Þeir fengu hornspyrnu á fimmtu mínútu sem Viktor Karl tók stutt horn og lagði boltann fyrir Höskuld Gunnlaugsson sem sendi hárnákvæma fyrirgjöf beint á kollinn á Damir sem stangaði boltann í hornið fjær. Frábær skalli hjá Damir. Damir fer á fullt í að fagna fyrsta marki leiksins.Vísir / Diego Valsmenn áttu í miklum vandræðum í uppspili sínu framan af leik og það virtist eins og ákefð Blika hafa komið þeim örlítið í opna skjöldu. Valsmenn hafa treyst mikið á skyndisóknirnar það sem af er sumri, leikplan Blika var að freista þess að brjóta á þeim þegar þeir töpuðu boltanum sem gekk fullkomlega upp. Ferðalagið frá Bosníu virtist alls ekki sitja í gestunum sem höfðu tögl og haldir í leiknum í fyrri hálfleiknum og áttu eftir að naga sig í handarbökin að hafa ekki nýtt yfirburða sína í fyrri hálfleik betur. Valsmenn mættu kraftmeiri inn í seinni hálfleikinn og ógnuðu marki Blika strax í fyrstu sókn. Síðari hálfleikurinn var þó fremur tíðindalítill fram að jöfnunarmarki Valsara sem kom 70. Mínútu. Tryggvi Hrafn Haraldsson tók þá hornspyrnu frá vinstri sem sveif inn að marki Blika, þar hitti boltinn á Bjarna Mark Antonssyni sem fleytti boltanum með höfðinu fram hjá Antoni í markinu. Það var spurning hvort brotið hafi verið á Antoni en Vilhjálmur sá ekkert athugavert. Fredrik Schram að hrifsa til sín boltann.Vísir / Diego Það var farið að draga talsvert af Blikaliðinu eftir því sem á leið leikinn. Halldór kom með ferskar lappir af bekknum sem að lífguðu upp á sóknarleik liðsins, en þeir náðu þó ekki að ógna marki Vals að neinu viti í síðari hálfleiknum. Ágúst Orri Þorsteinsson átti tvö fín skot af löngu færi sem Frederik varði þægilega í markinu. Orri Sigurður að stanga boltann í netið og tryggja sigurinn.Vísir / Diego Sigurmark leiksins kom svo í uppbótartíma þegar HK-ingurinn Orri Sigurður Ómarsson skoraði með góðum skalla af markteig eftir aðra hornspyrnu frá Tryggva. Ekki fallegasti fótboltaleikurinn hér á Hlíðarenda í kvöld, en seigla Valsmanna tryggði þeim fimm stiga forystu í Bestu deildinni þegar 9 leikir eru eftir af mótinu. Valsmenn fagna í kvöld og mega það svo sannarlega. Hart var barist. Að sjálfsögðu enda mikið undir.Vísir / Diego Atvik leiksins Mark Valsmanna í uppbótartíma gæti reynst afdrifaríkt í toppbaráttunni þetta sumarið. Klárlega atvik leiksins. Orri Sigurður með góðan skalla inn á markteig eftir hornspyrnu Tryggva Hrafns. Stjörnur og skúrkar Þetta var leikur fastra leikatriða, þrjú mörk eftir hornspyrnur og spyrnur Tryggva Hrafns Haraldssonar skiptu sköpum fyrir Valsmenn hér í kvöld. Það var fátt sem stefndi í sigur Vals og hann er óumdeilanlega maður leiksins fyrir þessar tvær stoðsendingar. Stemming og umgjörð N1 völlurinn skartaði sínu fegursta í veðurblíðunni á höfuðborgarsvæðinu í dag. Það er erfitt að hugsa um eitthvað jafn skemmtilegt en að mæta á fótboltaleik í svona einmunablíðu eins og í kvöld. Stemmingin frábær, þó mun meira sungið úr Blika stúkunni. Umgjörðin er alltaf frábær á Hlíðarenda. Troðfull stúkan fagnaði vel og innilega með sínum mönnum.Vísir / Diego Viðtöl: Tryggvi Hrafn: Ólýsandi að HK-ingurinn sjálfur geri sigurmarkið í lokin Valur - Breiðablik Besta Deild Karla Sumar 2025Vísir / Diego Tryggvi Hrafn Haraldsson lagði upp bæði mörk Valsliðsins í kvöld og var að vonum sáttur með stigin þrjú. „Þessi var eins sætur og þeir geta gerst, sérstaklega af því mér líður ekki eins og hann hafi verið sanngjarn heldur. Ólýsandi að HK-ingurinn sjálfur geri sigurmarkið í lokin, það er fallegt.“ Bæði mörk Vals komu eftir hornspyrnur frá Tryggva. Tryggvi segir að mönnum finnist misskemmtilegt að æfa föstu leikatriðin á æfingarsvæðinu. „Við erum búnir að vera skora mjög mikið úr föstum leikatriðum í sumar og það er búið að skila okkur fullt af stigum. Við eyðum mjög miklum tíma á æfingarsvæðinu í horn og aukaspyrnur, mönnum finnst það misskemmtilegt en menn verða að taka þetta á sig því þetta er algjörlega að skila sér í sumar.“ Valsmenn eru komnir með 5 stiga forystu á toppi deildarinnar. Tryggvi segir Valsmenn þó ekkert mega slaka í. „Það er frábært fyrir sjálfstraustið og sjá að við erum á toppnum á töflunni. Við þurfum að halda áfram að vinna okkar leiki, það er góð tilfinning að vera á toppnum en ef við slökum eitthvað á þá er það bara tímabundið.“ „Mér fannst stuðningsmennirnir troða þessu marki inn“ Túfa þakkaði stuðningsmönnum Vals fyrir að hafa troðið sigurmarkinu inn.vísir / diego Srdjan Tufegdzic, þjálfari Vals, var einkar ánægður með stuðninginn úr stúkunni eftir leik og sagði stuðningsmennina hafa sett sigurmarkið. Í rauninni var það þó Orri Sigurður sem skoraði sigurmarkið, beint upp úr hornspyrnu, alveg eins og þegar Bjarni Mark skoraði jöfnunarmarkið. „Við erum að æfa þetta mikið og eftir síðasta tímabil var markmiðið að bæta okkur bæði varnar- og sóknarlega. Við fengum reyndar mark á okkur eftir tvær mínútur í dag þannig að það er eitthvað sem þarf að halda áfram að æfa enn betur. En það er mikil vinna lögð í þetta og menn verða hungraðri með hverju marki sem þeir skora úr hornspyrnum“ sagði Túfa en tók svo fram að þó hornspyrnurnar hafi skilað sigrinum átti stúkan stóran þátt í honum líka. Stuðningsmennirnir tróðu sigurmarkinu inn „Stúkan var aðalástæðan fyrir því að unnum leikinn á endanum. Langt síðan ég hef séð stúkuna stútfulla af rauðum Valstreyjum. Mikill stuðningur og sérstaklega á lokamínútunum, mér fannst stuðningsmennirnir troða þessu marki inn.“ Túfa trekkti stuðningsmennina líka vel í gang meðan leiknum stóð, lyfti höndum og reif þá upp á lappirnar. „Já Valsarar eru komnir í smá sofandahátt undanfarin ár, við á vellinum og í þjálfarateyminu þurfum alltaf að kveikja í fólkinu… Ég vona að fólk skilji hvað þetta skiptir miklu máli fyrir okkur og núna er bara lokasprettur á tímabilinu eftir. Við þurfum að halda þessum stuðningi og vera með enn fleiri á vellinum.“ Auðvelt að mæta þegar gengur vel Valsmenn hafa sannarlega ástæður til að mæta á völlinn þessa dagana, liðið er í efsta sæti deildarinnar, ósigrað í síðustu átta deildarleikjum og á leið í bikarúrslitaleikinn. „Það er auðvelt að mæta þegar vel gengur en það er ekki langt síðan að það var mikil gagnrýni á okkur og fólk var kannski ekki alveg að sjá leiðina sem við erum í. En núna vona ég innilega að menn séu að fatta að vinnan sem við lögðum inn í vetur og sumar sé að skila sér… Það er hellingur eftir og við þurfum að halda áfram sama hungri, skila sömu vinnu og halda áfram að bæta okkur. Ef við gerum það verður góður endir á tímabilinu.“ Tekur fyrri hálfleikinn á sig Valur var langt á eftir Breiðabliki allan fyrri hálfleikinn og virkaði alls ekki tilbúið í þennan toppslag en Túfa tekur það á sig. „Mikil vonbrigði með það og í rauninni vorum við heppnir að vera bara 1-0 undir eftir 45 mínútur, eitthvað sem ég þarf að skoða því þetta var ekki í lagi. Snerist líka ekki endilega um fótbolta, hausinn var bara ekki í lagi og ég tek þessar 45 mínútur á mig, það var eitthvað sem klikkaði í undirbúningnum. En við fórum vel yfir í hálfleiknum, hvað við þurftum að bæta og breyta til að komast aftur inn í leikinn og það gerðist á endanum. Ég er mjög stoltur af karakternum og hugarfarinu hjá strákunum… Að ná að jafna og halda haus áfram og setja sigurmarkið í uppbótartímanum.“ Virkaði vel að fara hátt og langt Túfa var að lokum spurður út í ummæli Halldórs Árnasonar, þjálfara Breiðabliks, sem sagði það góða ákvörðun hjá Valsmönnum í kringum sjötugustu mínútu að hætta að spila boltanum milli sín og fara frekar hátt og langt. „Já ég fékk eitt stopp í leiknum og talaði aðeins við Frederik. Við ákváðum að brjóta þetta aðeins upp af því að pressan þeirra var góð í dag… Við ákváðum að vera beinskeyttari og svo fengum við líka frábæra varamenn inn. Þeir komu með mikla orku líka, það má ekki gleyma því, allir sem komu inn á lyftu leiknum á hærra plan. Það hjálpaði líka að upp úr þessum löngu boltum komu hornspyrnur og löng innköst, sem sköpuðu hættu undir lokin.“
Uppgjörið: Víkingur - Stjarnan 2-4 | Stjarnan sigraði Víking í viðburðarríkum leik Íslenski boltinn
Uppgjörið: Víkingur - Stjarnan 2-4 | Stjarnan sigraði Víking í viðburðarríkum leik Íslenski boltinn