Að minnsta kosti 21 særðist í árásunum sem stóðu yfir um nokkurra klukkustunda skeið. Úkraínumenn segja að minnsta kosti 43 byggingar hafa orðið fyrir skemmdum í Kharkív og þar af 23 fjölbýlishús og fimmtán einbýlishús.
Ihor Terekhov, borgarstjóri Kharkív, hefur lýst árásunum sem hryðjuverkum.
Ríkisstjóri Kherson segir árásir einnig hafa verið gerðar á þá borg og að par, kona og karl á sextugsaldri, hafi fallið.
Í heildina segja Úkraínumenn að Rússar hafi notast við 206 dróna og níu eldflaugar af ýmsum gerðum til árása í Úkraínu í nótt. Þeir segja 87 dróna og sjö eldflaugar hafa verið skotnar niður.
Árásirnar fylgja sambærilegum árásum á borgir og bæi Úkraínu í vikunni. Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hafði eftir Vladimír Pútin, kollega sínum í Rússlandi, í vikunni að Rússar myndu bregðast við árásum Úkraínumanna á herflugvelli í Rússlandi um síðustu helgi. Hann bætti svo við í nótt og sagði að með árásunum á flugvellina hefðu Úkraínumenn gefið Pútín ástæðu til að varpa sprengjum á Úkraínu.
Árásir Rússa eru í þó alls ekki nýjar af nálinni. Sambærilegar árásir hafa staðið yfir frá upphafi innrásar þeirra.
Gagnrýndi ummæli Trumps um börn í slag
Trump líkti Rússum og Úkraínumönnum við börn í slagsmálum á leikvelli í vikunni og sagði að ef til vill væri réttast að láta þá berjast um skeið. Síðan væri hægt að slíta þá í sundur og falast eftir friði. Eins og bent er á í frétt AP fréttaveitunnar gefa ummælin til kynna að Trump, sem sagðist lengi ætla að binda enda á stríðið um leið og hann tæki við embætti, hafi gefist upp á tilraunum sínum til að stilla til friðar.
Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, sagði í klippu úr viðtali sem birt var í gærkvöldi að ummæli Trumps væru til marks um að hann, og aðrir utan Úkraínu, skyldu ekki þjáningar Úkraínumanna.
„Ég og Pútín erum ekki börn á leikvelli. Hann er morðingi sem kom á leikvöllinn til að myrða börn.“