Íslenski boltinn

Hrósuðu Alexander: „Varð ekkert var við það að þarna væri fimm­tán ára strákur inni á vellinum“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Alexander Rafn Pálmason þykir mikið efni og strákarnir í Stúkunni hrifust af frammistöðu hans gegn ÍBV.
Alexander Rafn Pálmason þykir mikið efni og strákarnir í Stúkunni hrifust af frammistöðu hans gegn ÍBV. stöð 2 sport

Alexander Rafn Pálmason skráði sig á spjöld íslenskrar fótboltasögu þegar hann skoraði í 4-1 sigri KR á ÍBV á laugardaginn. Hann er rétt rúmlega fimmtán ára en sérfræðingar Stúkunnar segja að það sjáist ekki á spilamennsku hans.

Alexander kom KR yfir gegn ÍBV með laglegu skoti með vinstri fæti úr vítateignum. Hann bætti þar með met Eiðs Smára Guðjohnsen frá 1994 en gamli landsliðsfyrirliðinn varð þá yngstur til að skora í efstu deild, fyrir Val gegn ÍBV, fimmtán ára og 253 daga að aldri.

Alexander er fæddur 7. apríl 2010 og var því fimmtán ára og 33 daga gamall þegar hann skoraði á laugardaginn. 

Lárus Orri Sigurðsson hreifst af frammistöðu Alexanders í leiknum í Laugardalnum í fyrradag.

„Ef maður á ekki að vera meðvirkur með aldrinum heldur horfa burtséð frá honum held ég að stærsta hólið sem maður getur gefið honum er það að maður varð ekkert var við það að þarna væri fimmtán ára strákur inni á vellinum,“ sagði Lárus Orri í Stúkunni í gær.

„Hann skorar þetta mark og stendur ágætlega fyrir sínu. Þetta er gríðarlega efnilegur piltur og geta haldið sínu á þessum vettvangi á þessum aldri er frábært.“

Albert Brynjar Ingason hrósaði Alexander einnig fyrir markið.

„Geðveikt mark. Móttaka með hægri, skot með vinstri,“ sagði Albert.

Klippa: Stúkan - umræða um Alexander Rafn

Í Stúkunni var sögulegt mark Eiðs Smára í Eyjum fyrir 31 ári sýnt.

„Þessi endaði í Chelsea og Barcelona. Það er gaman að sjá hvað hinn gerir,“ sagði Lárus Orri í léttum dúr.

Innslagið úr Stúkunni má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir

Yngsti marka­skorari efstu deildar: „Langaði í annað“

Alexander Rafn Pálmason var í skýjunum og brosti út að eyrum eftir sigurleik sinna manna í KR á ÍBV, lokatölur 4-1. Skiljanlega, þar sem Alexander Rafn var að byrja sinn fyrsta leik í Bestu deildinni og ekki nóg með það þá varð hann yngsti markaskorari í sögu efstu deildar á Íslandi eftir að hann skoraði fyrsta mark leiksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×