Íslenski boltinn

Eiður Smári missir hvert metið á fætur öðru til ungra KR-inga

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alexander Rafn Pálmason á nú öll fjögur metin sem Eiður Smári sló með Valsmönnum sumarið 1994.
Alexander Rafn Pálmason á nú öll fjögur metin sem Eiður Smári sló með Valsmönnum sumarið 1994. Vísir/Guðmundur Þórlaugarsson/timarit.is

Sumarið fyrir 31 ári var sumarið sem hinn fimmtán ára Eiður Smári Guðjohnsen skrifaði nýjan kafla í sögu íslenska fótboltans. Eiður Smári mætti nánast fullskapaður leikmaður inn í byrjunarlið Valsmanna frá fyrsta leik í Trópídeildinni 1994. Nú þremur áratugum síðar er þetta sumar næstum því horfið úr metabókunum.

Eiður setti fjögur met í tveimur fyrstu leikjunum sínum sumarið 1994 og tvö þeirra voru met sem stóðu allt þar til í sumar. Það þriðja féll í lokaumferðinni á síðasta tímabili. Í síðustu sjö umferðum Bestu deildar karla hefur Eiður Smári misst þrjú met.

Frétt Morgunblaðsins um metið hans Eiðs Smára fyrir 31 ári síðan.Timarit.is/Morgublaðið

Byrjaði fyrsts leik mótsins og lagði upp mark

Í fyrstu umferðinni á móti Keflavík í maí 1994 þá setti Eiður nefnilega þrjú met. Hann varð þá yngsti leikmaðurinn til að spila í efstu deild á Íslandi og um leið yngsti leikmaðurinn til að byrja leik. Í þessum leik var Eiður Smári aðeins fimmtán ára og 259 daga gamall.

Eiður náði ekki að skora á móti Keflavík en lagði hins vegar upp mark Valsliðsins. Varð þá sá yngsti til að leggja upp mark í deildinni. Aðeins þremur dögum seinna setti Eiður hins vegar annað met þegar hann skoraði mark Vals í 1-1 jafntefli á móti ÍBV úti í Eyjum.

Eiður Smári missti aldursmetið sitt í lokaumferð mótsins 1994 þegar KR-ingurinn Árni Ingi Pjetursson varð yngsti leikmaðurinn til að spila í efstu deild, þá fimmtán ára og 149 daga gamall. Metið hefur verið slegið nokkrum sinnum síðan þá.

Bætti stoðsendingametið í október

Alexander Rafn Pálmason tók stoðsendingametið af Eiði í 7-0 sigri KR á HK í lokaumferð neðri hluta Bestu deildar karla í fyrrahaust en hann var aðeins 14 ára, 6 mánaða og 19 daga þegar hann lagði upp síðasta markið fyrir Benoný Breka Andrésson. Það mark varð auðvitað metmark en enginn hefur skorað fleiri mörk á einni leiktíð en Benoný Breki.

Næstum því tveimur mánuðum áður hafði Alexander Rafn orðið sá yngsti frá upphafi til að taka þátt í leik í efstu deild á Íslandi þegar hann kom við sögu í leik KR á móti ÍA. Þann dag var Alexander aðeins 14 ára og 147 daga gamall.

Það var fyrsta aldursmet Alexanders en eftir frammistöðu hans í Laugardalnum á laugardaginn þá á hann nú öll fjögur metin sem voru einu sinni í eigu Eiðs Smára.

Eiður Smári missti reyndar byrjunarliðsmetið sitt til liðsfélaga Alexanders, Sigurðar Breka Kárasonar, sem varð yngsti byrjunarliðsmaður sögunnar í 3-3 jafntefli KR og Vals í annarri umferðinni í sumar.

Alexander hrifsaði það met af Sigurði Breka þegar Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari KR, valdi hann í byrjunarliðið fyrir leikinn á móti ÍBV á laugardaginn.

Lifa síðustu met Eiðs Smára?

Alexander er nú yngstur til spila, byrja inn á, skora mark og gefa stoðsendingu í efstu deild á Íslandi.

Eiður Smári á enn þrjú met. Hann varð ekki sextán ára sumarið 1994 fyrr en 15. september. Þá var hann búinn að skora 7 mörk og gefa 5 stoðsendingar í deildarleikjum Vals. Enginn leikmaður hefur skorað, lagt upp eða átt þátt í fleiri mörkum fyrir sextán ára afmælið sitt.

Alexander Rafn fær vonandi marga leiki í sumar til að ógna þessu meti enda verður hann ekki sextán ára gamall fyrr en í apríl á næsta ári. Hvort að Eiður missti þessi met líka eftir sumarið verður bara að koma í ljós en miðað við afgreiðslu Alexanders á móti Eyjamönnum þá er alls ekki hægt að afskrifa slíkt.

  • - Aldursmetin í eftu deild karla 26. maí 1994 -
  • Yngstur til að spila: Eiður Smári Guðjohnsen, Val á móti Keflavík 23. maí 1994
  • Yngstur til að byrja: Eiður Smári Guðjohnsen, Val á móti Keflavík 23. maí 1994
  • Yngstur til að skora: Eiður Smári Guðjohnsen, Val á móti ÍBV 26. maí 1994
  • Yngstur til að gefa stoðsendingu: Eiður Smári Guðjohnsen, Val á móti Keflavík 23. maí 1994
  • -
  • - Aldursmetin í eftu deild karla 10. maí 2025 -
  • Yngstur til að spila: Alexander Rafn Pálmason, KR á móti ÍA 1. september 2024
  • Yngstur til að byrja: Alexander Rafn Pálmason, KR á móti ÍBV 10. maí 2025
  • Yngstur til að skora: Alexander Rafn Pálmason, KR á móti ÍBV 10. maí 2025
  • Yngstur til að gefa stoðsendingu: Alexander Rafn Pálmason, KR á móti HK 26. október 2024



Fleiri fréttir

Sjá meira


×