Enski boltinn

Börn Bruno Fernandes kvöddu Jóhann: „Hann er toppmaður“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Jóhann Berg ásamt konu sinni Hólmfríði, börnum sínum og börnum Bruno Fernandes og konu hans Önu Pinho á Turf Moor um helgina.
Jóhann Berg ásamt konu sinni Hólmfríði, börnum sínum og börnum Bruno Fernandes og konu hans Önu Pinho á Turf Moor um helgina. Skjáskot/Instagram

Jóhann Berg Guðmundsson kvaddi Burnley á sunnudaginn var eftir átta ára veru hjá félaginu. Athygli vakti að börn stórstjörnu voru með honum í för.

Fernandes endurdeildi myndinni sem Jóhann hafði deilt í sögu sinni á Instagram.Skjáskot/Instagram

Burnley er í um klukkustundarfjarlægð frá Manchester, í norðri, en þeir Jóhann og Bruno Fernandes, leikmaður Manchester United, búa á svipuðum slóðum og börn þeirra ganga í sama skóla.

Fernandes og Jóhann hafa mæst reglulega í gegnum tíðina. Bæði í leikjum United við Burnley í ensku úrvalsdeildinni og einnig með landsliðum Íslands og Portúgal. Þrátt fyrir baráttu innan vallar eru þeir mestu mátar utan hans og þá sérstaklega börnin.

Þar sem lokaleikur United-liðsins var á suðurströnd Englands ákvað Ana Pinho, kona Fernandes, að börn þeirra hjóna færu á Turf Moor að kveðja Jóhann Berg.

„Þau eru góðir vinir okkar og hann átti útileik á móti Brighton svo konan hans vildi koma með börnin á síðasta leikinn hjá mér. Þau ákváðu að koma inn á líka og taka hringinn í kringum völlinn. Það var bara gaman að fá þau líka á völlinn,“ segir Jóhann Berg í samtali við Vísi.

Klippa: Jóhann Berg um tengslin við Bruno Fernandes

Gaman að þau komist á Old Trafford líka

Mikill samgangur er hjá hjónunum; Bruno og Önu Pinho, og Jóhanni og konu hans, Hólmfríði Björnsdóttur og börn þeirra á svipuðu reiki.

„Dætur okkar eru bestu vinir og synir okkar líka. Það eru mikil tengsl þarna á milli. Við erum mikið saman, hann er toppmaður og konan hans líka,“

„Það er mikið samband og bara gaman að þekkja þau. Fyrir okkar börn líka að fá að fara á Old Trafford og fara inn á völlinn hjá þeim. Það er bara gott samband á milli okkar,“ segir Jóhann Berg.

Sjá má viðtalsbútinn í spilaranum að ofan. Að neðan má sjá annan hluta úr viðtali við Jóhann Berg sem birtur var í Sportpakkanum á Stöð 2 í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×