Erlent

Gerðu á­rásir í átta héruðum Rúss­lands

Samúel Karl Ólason skrifar
Rússneskir menn sem berjast með Úkraínu gerðu áhlaup á tvö héruð Rússlands.
Rússneskir menn sem berjast með Úkraínu gerðu áhlaup á tvö héruð Rússlands. AP/Evgeniy Maloletka

Úkraínumenn gerðu umfangsmiklar drónaárásir í að minnsta kosti átta héruðum Rússlands í nótt. Í einu tilfelli var gerð árás á olíuvinnslustöð í um 775 kílómetra fjarlægð frá landamærum Úkraínu. Þá hafa rússneskir menn sem berjast með Úkraínu gert aðra atlögu inn í Belgórodhérað og Kúrskhérað í Rússlandi.

Úkraínskum drónum var flogið í að minnsta kosti átta héruðum. Einn þeirra er sagður hafa verið skotinn niður einum af fjórum alþjóðlegum flugvöllum Moskvu, samkvæmt AP fréttaveitunni.

Varnarmálaráðuneyti Rúslands segist hafa skotið dróna yfir Belgórod, Bríansk, Kúrsk, Leníngrad og Túla. Þá hafi eldflaugar frá Úkraínu einnig verið skotnar niður yfir Belgórod.

Eldur kviknaði í olíuvinnslustöð í Nisní Novgorodhéraði, sem er um 775 kílómetra frá landamærum Úkraínu, þegar dróni sprakk þar í loft upp í nótt. Árás var einnig gerð á aðra olíuvinnslustöð í Oríól, sem er um 116 kílómetra frá Úkraínu.

Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, tilkynnti í fyrra að mikið púður hefði verið lagt í þróun nýrra sjálfsprengidróna sem hægt væri að nota til árása í allt að sjö hundruð kílómetra fjarlægð. Undanfarnar vikur hafa Úkraínumenn væntanlega notað slíka dróna til fjölmargra árása í Rússlandi.

Margar þeirra virðast beinast að olíu- og gasvinnslu í Rússlandi, sem er helsta tekjulind ríkisins.

Fregnir hafa einnig borist af eldi í Pétursborg í morgun.

Til viðbótar við drónaárásir í Rússlandi gerðu rússneskir menn sem berjast með Úkraínumönnum áhlaup í Belgórod og Kúrskhéruð í Rússlandi. Forsvarsmenn hópa sem kallast „Frjálst Rússland hersveitin“, „Síberíska herfylkið“ og „Rússneska sjálfboðaliðasveitin“ birtu yfirlýsingar á samfélagsmiðlum í morgun þar sem þeir lýstu því yfir að ný áhlaup á Rússland hafi verið gerð.

Þetta hafa hóparnir nokkrum sinnum gert frá því innrás Rússa í Úkraínu hófst og segjast meðlimir þessara hópa vilja frelsa Rússland frá Vladimír Pútín, forseta.

Óljóst er hve miklum árangri þessi áhlaup hafa skilað en héraðsstjóri Kúrsk segir að til skotbardaga hafi komið og að áhlaupið hafi verið stöðvað. Myndefni sem birt hefur verið á samfélagsmiðum sýnir skriðdrekum ekið um svæðið.


Tengdar fréttir

Mátu helmings­líkur á kjarn­orku­styrj­öld haustið 2022

Haustið 2022 mátu yfirvöld í Bandaríkjunum stöðu mála í Úkraínu þannig að það væru helmingslíkur á að stjórnvöld í Rússlandi myndu beita kjarnorkuvopnum til að stöðva Úkraínumenn ef herinn kæmist í gegnum varnir Rússa á Krímskaga.

Segir Trump ætla að stöðva alla aðstoð handa Úkraínumönnum

Viktor Orban, umdeildur forsætisráðherra Ungverjalands, segir Donald Trump, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna og núverandi forsetaframbjóðanda, hafa sagt sér að verði hann forseti á nýjan leik muni hann binda endi á alla hernaðaraðstoð til Úkraínu. Það er samkvæmt Orban liður í „nákvæmum áætlunum“ Trumps um að binda enda á stríðið í Úkraínu.

Svíþjóð formlega gengin í NATO

Svíþjóð fékk klukkan fjögur í dag að íslenskum tíma formlega aðild að Atlantshafsbandalaginu, þegar forsætisráðherrann undirritaði plagg þess efnis. Svíþjóð er þannig þrítugasta og annað ríki bandalagsins. Svíar sóttu um inngöngu í bandalagið fyrir tveimur árum, vegna innrásar Rússa í Úkraínu. 

Sökktu enn einu herskipinu

Úkraínumenn virðast hafa sökkt enn einu rússneska herskipinu á Svartahafi í nótt. Leyniþjónusta úkraínska hersins (GUR) birti í morgun myndband af drónaárás sem gerð var á skipið Sergei Kotov og fylgir myndbandinu að skipið hafi sokkið.

Rannsaka aftöku á minnst sjö stríðsföngum

Yfirvöld í Úkraínu hafa til rannsóknar myndband sem virðist sýna rússneska hermenn taka minnst sjö úkraínska hermenn sem hafa gefist upp af lífi. Atvikið var fangað á myndband með dróna sem var yfir svæðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×