Erlent

„Of margir Palestínu­menn dóu í dag“

Samúel Karl Ólason skrifar
Hlúð að fólki á gólfi Shifa sjúkrahússins í Gasaborg í dag.
Hlúð að fólki á gólfi Shifa sjúkrahússins í Gasaborg í dag. AP/Mahmoud Essa

Talið er að minnsta kosti 112 hafi dáið og hundruð hafi slasast og eða særst á Gasaströndinni síðustu nótt þegar verið var að flytja matvæli og neyðarbirgðir á svæðið. Palestínumenn segja ísraelska hermenn hafa skotið á þvögu fólks sem stöðvaði vörubílanna með birgðirnar.

Búist er við að tala látinna muni hækka.

Mikill troðningur varð þegar þúsundir manna ruddust að bílunum en gífurleg neyð er á svæðinu og mikill skortur á matvælum og öðrum nauðsynjum. Ísraelar hafa komið í veg fyrir umfangsmikla birgðaflutninga til fólksins á Gasa og hafa Sameinuðu þjóðirnar og aðrir varað við hungursneyð.

Verið var að flytja birgðir á um þrjátíu bílum og var stefnan sett á norðurhluta Gasastrandarinnar. Þegar bílarnir nálguðust Gasaborg um klukkan fjögur í nótt streymdi fólk að bílalestinni og fór að taka matvæli og aðrar vöru af bílunum. Margir tróðust undir og einhverjir urðu undir bílunum þegar ökumenn þeirra reyndu að komast á brott.

Atburðir dagsins eru enn nokkuð óljósir en ásakanir um hverjir bera ábyrgð á dauðsföllunum ganga á víxl. Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna hefur hætt flutningi á aðstoð til norðurhluta Gasa vegna erfiðleika. Íbúar og starfsmenn hjálparsamtaka segja óöld ríkja á svæðinu.

Ísraelar birtu meðfylgjandi myndband í dag.

Blaðamaður AP fréttaveitunnar ræddi við mann sem var á sjúkrahúsi með skotsár. Hann sagði fólk hafa heyrt af því að verið væri að flytja mat í gegnum svæðið og því hafi þó hópast að bílunum.

„Við erum búin að vera að éta dýrafæði í tvo mánuði,“ sagði hann.

Þegar fólk var að taka hveiti og dósir af bílunum segir hann að hermenn hafi skotið á fólkið. Fólk hafi hlaupið á brott og falið sig undir bílunum. Þegar skothríðin hætti hélt fólkið áfram að taka af bælunum og segir hann hermennina hafa þá hleypt af aftur.

Hann fékk skot í fótinn og svo var einum vörubíl ekið yfir fótinn á honum.

Töldu sér ógnað og skutu á fólk

Forsvarsmenn heilbrigðisráðuneytis Gasastrandarinnar, sem stýrt er af Hamas-samtökunum, segja ísraelska hermenn hafa skotið á fólkið og hafa lýst atvikinu sem fjöldamorði. Því hefur einnig verið haldið fram að hermenn hafi skotið á bílalestina.

Ísraelar viðurkenna að hermenn hafi hleypt af skotum en segja lang flesta sem dóu eða slösuðust hafa gert það í troðningnum sem myndaðist.

Í frétt New York Times er haft eftir ónefndum ísraelskum embættismanni að hermenn sem hafi verið við suðurenda bílalestarinnar hafi skotið að fólki sem ógnaði þeim. Fyrst hafi þeir þó hleypt af viðvörunarskotum.

Læknir sem blaðamaður NYT ræddi við segist hafa séð fjölda fólks með skotsár, auk líka sem lágu á götunni. Þau höfðu troðist undir eða orðið fyrir bílunum.

Talsmaður Ísraels segir rangt að hermenn hafi skotið að bílalestinni. Skriðdrekar hafi verið á svæðinu svo hægt væri að tryggja að bílalestin kæmist til norðurhluta Gasastrandarinnar. Áhafnir þeirra hefðu horft á fólk troðið undir og hefðu skotið nokkrum viðvörunarskotum.

Matthew Miller, talsmaður utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna, sagði í kvöld að atvikið varpaði ljósi á gífurlega slæmt ástand á Gasaströndinni. Hann sagði það sýna bersýnilega nauðsyn þess að auka flæði mannúðaraðstoðar á svæðið. Örvæntingin væri augljós.

„Of margir Palestínumenn dóu í dag,“ sagði Miller. Hann bætti við að ásættanlegur fjöldi dauðsfalla hefði verið núll.

Miller sagði ráðamenn í Bandaríkjunum vera að leita frekari upplýsinga um atvikið og sömuleiðis reyna að koma á vopnahléi.


Tengdar fréttir

Ísraelsmenn og Hamas segja Biden hafa verið helst til bráðlátan

Bæði Ísraelsmenn og fulltrúar Hamas-samtakanna segja Joe Biden Bandaríkjaforseta, sem sagðist í fyrradag vonast til þess að vopnhlé yrði í höfn eftir næstu helgi, hafa verið helst til bráðlátann þegar hann lét ummælin falla.

Við­ræður um fanga­skipti og vopna­hlé mjakast á­fram

Joe Biden Bandaríkjaforseti sagðist í gær telja að samkomulag um vopnahlé og lausn gísla í haldi Hamas myndi mögulega liggja fyrir eftir um það bil viku. „Við erum nálægt því. Við erum ekki búin ennþá. Ég vona að á mánudag verði vopnahlé í höfn,“ sagði forsetinn.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×