Basem Naim, leiðtogi stjórnmálaarms Hamas á Gasa sagði í gær að samtökin hefðu ekki fengið nýjar tillögur formlega í hendur eftir viðræður í París í síðustu viku, sem áttu sér stað fyrir millgöngu Bandaríkjanna, Egyptalands og Katar.
Ummæli Biden væru ekki í takt við raunveruleikann „á víglínunni“.
Embættismenn í Ísrael sögðu sömuleiðis í samtali við Reuters að ummæli Biden hefðu komið á óvart og að ekkert samráð hefði verið haft við stjórnvöld í Ísrael áður en þau voru látin falla. Þannig væru Hamas-liðar enn að gera óraunhæfar kröfur í viðræðunum.
Biden sagði meðal annars að Ísraelsmenn hefðu samþykkt að láta af árásum yfir Ramadan, föstuhátíð múslima, í þeim tilgangi að gefa samningateyminu tækifæri til að ná öllum gíslum frá Gasa.
Vísir greindi frá ákveðnum skilmálum vopnahléssamkomulagsins sem nú liggur á borðinu í gær en samkvæmt Guardian felur það einnig í sér að Ísraelsmenn heimiluðu viðgerðir á heilbrigðisstofnunum og bakaríum á Gasa, hleyptu 500 flutningabifreiðum með neyðaraðstoð inn á svæðið á hverjum degi og að þeim gríðarlega fjölda sem væri á vergangi yrði séð fyrir tjöldum og öðru skjóli.
Þá yrði öðrum en fullorðnum mönnum leyft að snúa aftur til norðurhluta Gasa.