Íslenski boltinn

Þróttur sækir leik­mann sem hefur áður spilað hér á landi

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Caroline Murray í leik með FH á sínum tíma.
Caroline Murray í leik með FH á sínum tíma. Vísir/Ernir

Þróttur Reykjavík hefur samið við Caroline Murray um að spila með liðinu í Bestu deild kvenna í knattspyrnu á næstu leiktíð. Hún þekkir ágætlega til á Íslandi eftir að hafa leikið hér á landi sumarið 2017.

Murray hefur undanfarin ár leikið í Svíþjóð og Danmörku. Hún er reynslumikill leikmaður sem verður 31 árs á þessu ári og er að koma til Íslands í annað sinn. Hún lék alls 18 leiki með FH þegar liðið endaði í 6. sæti 2017.

„Caroline er kraftmikill leikmaður með mikla reynslu sem á eftir að nýtast Þróttaraliðinu vel í sumar. Bjóðum hana velkomna í Þrótt,“ segir í tilkynningu Þróttar.

Þróttur endaði í 3. sæti Bestu deildarinnar á síðustu leiktíð en síðan þá færði þjálfari liðsins, Nik Chamberlain, sig yfir til Breiðabliks. Framherjinn Ólöf Sigríður Kristinsdóttir fór sömu leið og þá samdi markvörðurinn Íris Dögg Gunnarsdóttir við Val. Hin unga og efnilega Katla Tryggvadóttir gekk svo í raðir Kristianstad í Svíþjóð.

Þróttarar eru byrjaðir að fylla í skörðin en Ólafur Kristjánsson tók við þjálfun liðsins og þá mun hin bandaríska Mollee Swift standa í markinu. Nú er Caroline mætt til að þétta raðirnar en hún leikur vanalega sem bakvörður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×