Íslenski boltinn

Helena í Valstreyju þegar hún snýr aftur

Sindri Sverrisson skrifar
Helena Ósk Hálfdánardóttir tekur í spaðann á nýja þjálfaranum sínum, hinum sigursæla Pétri Péturssyni.
Helena Ósk Hálfdánardóttir tekur í spaðann á nýja þjálfaranum sínum, hinum sigursæla Pétri Péturssyni. Valur

Íslandsmeistarar síðustu þriggja ára í fótbolta kvenna, Valsarar, hafa tryggt sér krafta Helenu Óskar Hálfdánardóttur næstu tvö árin. Hún kemur til félagsins frá helstu keppinautunum í Breiðabliki.

Helena, sem verður 23 ára í þessum mánuði, er öflugur leikmaður sem ólst upp hjá FH en hefur einnig spilað með Fylki og svo Breiðabliki.

Hún missti hins vegar af allri síðustu leiktíð eftir að hafa slitið krossband í hné. Í 82 leikjum í efstu deild hefur hún skorað níu mörk.

„Helena er gríðarlega öflugur leikmaður sem mun styrkja hópinn okkar fyrir komandi átök. Hún hefur fyrir löngu sannað sig í efstu deild hér á landi og með henni kemur kraftur og metnaður sem við viljum sjá. Við höfum misst marga leikmenn og þurfum að bæta í okkar hóp til að sækja titilinn að nýju – Helena er svo sannarlega góð viðbót,“ segir Pétur Pétursson þjálfari Vals, á Facebook-síðu félagsins.

Helena er annar leikmaðurinn sem Valur semur við í vetur en Katie Cousins skrifaði undir hjá félaginu um miðjan desember.

Meistararnir hafa hins vegar misst lykilmenn því Ásdís Karen Halldórsdóttir, Bryndís Arna Níelsdóttir og Þórdís Elva Ágústsdóttir eru allar farnar í atvinnumennsku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×